Sameining sjúkrahúsa í Reykjavík

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 14:07:55 (713)


[14:07]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég svaraði þessu áðan: Jú, vissulega er ástæða til að velta þessum sameiningarmálum fyrir sér nú við gerð fjárlaga fyrir árið 1994. Ég hygg hins vegar að skynsamlegra sé að nálgast þessi mikilvægu verkefni undir þeim formerkjum að stóru sjúkrahúsin eru nú að ræða skynsamlega verkaskiptingu sín á milli. Þar hefur verið mjög ofarlega í umræðunni og ekki síst nú á síðustu dögum framtíð barnadeildar eða barnadeilda og það er auðvitað mál sem kemur til með að vega nokkuð í fjárlagavinnunni. Ég held því að orðið sameining milli tveggja stofnana sé kannski ekki lykilhugtakið í þessu,

heldur hvernig skipast munu verk á sjúkrahúsunum þremur sem nú eru í framtíðinni. Ég tel að í því ljósi séu forsendur í fjárlagafrv. fullkomlega rökréttar og vel ígrundaðar.