Aðild Íslendinga að Svalbarðasamkomulaginu

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 14:10:36 (715)


[14:10]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Það hefur ekki verið litið svo á að við ættum aðild að Svalbarðasamkomulaginu vegna ákvörðunar Dana á sínum tíma. Það hefur hins vegar verið til skoðunar hvort ekki væri rétt að Íslendingar gerðust aðilar að þessu samkomulagi og sú skoðun hefur farið fram í utanrrn.
    Á sl. hausti höfðu nokkrir skipstjórar uppi áform um að hefja veiðar innan þessa svæðis. Sjútvrn. sendi þá skipstjórum sem voru við veiðar í Smugunni orðsendingu að höfðu samráði við forsrn. og utanrrn. þar sem skipstjórarnir voru varaðir við að fara þar til veiða. Reikna mætti með því að norsk strandgæsluskip mundu halda þar uppi löggæslu og íslensk stjórnvöld gætu ekki veitt vernd innan svæðisins. Þessi afstaða er óbreytt af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar. En það er rétt að taka það fram að innan utanrrn. hefur verið starfshópur sem hefur verið að skoða réttarstöðuna að því er Svalbarðasvæðið varðar.