Vegalög

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 14:20:35 (717)

[14:20]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir var lagt fyrir síðasta Alþingi en varð eigi útrætt og er nú endurflutt. Það er árangur nefndarstarfs.
    Í febrúarmánuði 1992 skipaði ég nefnd til að endurskoða vegalögin. Í henni áttu sæti Þórhallur Jósepsson deildarstjóri, samgrn., formaður, Árni M. Mathiesen alþm., Gunnlaugur Stefánsson alþm., Karl Steinar Guðnason alþm., Pálmi Jónsson alþm., Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga, Gunnar Gunnarsson framkvæmdastjóri, Vegagerð ríkisins, og Helgi Hallgrímsson vegamálastjóri.
    Nefndin fór yfir gildandi vegalög og tillögur sem Vegagerðin hafði til úrbóta og athugasemdir sem frá öðrum bárust og er frv. niðurstaða þeirrar vinnu.
    Helstu nýmælin eru þau að í gildandi vegalögum eru fjórir meginflokkar vega, þ.e. þjóðvegir (stofnbrautir og þjóðbrautir), sýsluvegir, þjóðvegir í þéttbýli og einkavegir. Er þá ótalinn flokkur vega sem inniheldur ýmsa vegi, svo sem aðalfjallvegi, aðra fjallvegi, þjóðgarðavegi og vegi að fjölsóttum ferðamannastöðum.
    Samkvæmt frv. verða meginflokkar vega einungis tveir, þ.e. þjóðvegir og einkavegir. Þjóðvegir skiptast í fjóra undirflokka, stofnvegi, tengivegi, safnvegi og landsvegi. Einkavegir skiptast í tvo undirflokka, þ.e. vegi sem veita má fé til í vegáætlun og þá sem alfarið eru kostaðir af eigendum sínum.
    Með þessu móti verður til samfellt þjóðvegakerfi sem nær til allra þéttbýlisstaða, svo og byggðra bóla utan þéttbýlis auk flugvalla og hafna ef þaðan eru stundaðar reglubundnar áætlunarferðir.
    Í öðru lagi felast í þessu frv. ákvæði um veghald. Samkvæmt gildandi lögum er Vegagerðin veghaldari allra opinberra vega. Þess utan er veghald eða forræði og ábyrgð á vegum ekki skilgreind í lögum, en þó verður að líta svo á að veghald einkavega sé í höndum eigenda þeirra. Ýmsir flokkar vega verða þá eftir án veghaldara (fjallvegir, þjóðgarðavegir og vegir að fjölsóttum ferðamannastöðum).
    Með frv. er ráðin bót á þessu. Vegagerðin er veghaldari allra þjóðvega. Heimilt er vegamálastjóra að fela öðrum aðilum veghald einstakra vegarkafla eins og verið hefur, og eru þær heimildir heldur rýmkaðar frá gildandi lögum. Í reynd hefur veghald þjóðvega í þéttbýli að verulegu leyti verið í höndum viðkomandi sveitarfélags.
    Í þriðja lagi er hér fjallað um vegáætun og langtímaáætlun. Ákvæðum um vegáætlun er breytt að því marki sem leiðir af breyttum reglum um flokkum vega. Að öðru leyti er ekki um miklar efnisbreytingar að ræða. Þannig fjallar Alþingi, auk meginþátta í áætluninni, fyrst og fremst um stofnvegi og tengivegi. Héraðsráð og vegasamlög fjalla um safnvegi. Samgrh. ákveður skiptingu til landsvega og styrkveitingar til einkavega.
    Nýmæli í frv. eru ákvæði um langtímaáætlun, en ekkert er um hana í gildandi lögum. Langtímaáætlun var fyrst gerð 1983 samkvæmt þál. sem samþykkt var á Alþingi vorið 1981. Þrátt fyrir að langtímaáætlanir hafi ekki verið formlega afgreiddar frá Alþingi hafa þær reynst notadrjúgar sem stefnumörkun. Við endurskoðun vegalaga þykir nefndinni rétt að setja þar inn ákvæði um langtímaáætun, skapa henni lagagrundvöll og þar með meiri festu. Ákvæðin eru í sama anda og þál. frá 1981 en að teknu tilliti til þeirrar reynslu sem af þeirri framkvæmd hefur hlotist.
    Loks eru ákvæði um skipulagsmál en samkvæmt skipulagslögum frá 1978 eru öll sveitarfélög skipulagsskyld. Öll mannvirki önnur en byggingar á lögbýlum skulu byggð í samræmi við áður gerðan skipulagsuppdrátt. Ný ákvæði eru tekin inn í frv. til að árétta þetta að því er varðar vegi.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð. Ég gerði ítarlega grein fyrir málinu fyrir einu ári og sú ræða liggur fyrir í þingtíðindum.
    Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og samgn. Ég geri mér vonir um að unnt verði að afgreiða frv. á þessu þingi þar sem umsagnir liggja fyrir og þingmönnum hefur gefist gott svigrúm í sumar til þess að athuga einstaka efnisþætti þess og að sjálfsögðu mun Vegagerð ríkisins láta í té alla aðstoð og upplýsingar sem beðið er um.