Vegalög

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 14:52:28 (721)

[14:52]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Hér er um mjög mikilvæga lagasetningu að ræða. Samgöngur á vegum eru snar þáttur í daglegu lífi okkar Íslendinga og þetta varðar okkur öll með einum eða öðrum hætti.
    Ég vil byrja á því að taka undir það sjónarmið sem hér hefur komið fram að mér finnst annarlega staðið að undirbúningi frv. Það er raðað þarna inn alþingismönnum úr stjórnarliðinu en úr flokkum stjórnarandstöðunnar eru engir fulltrúar. Ég mæli þetta ekki vegna þess að ég hafi neitt sérstakt vantraust á hv. þm. sem að þessu máli komu frá stjórnarliðinu, en þetta er svo sem í samræmi við mörg önnur vinnubrögð hjá hæstv. núv. ríkisstjórn.
    Ég tel að þetta frv. sé þannig unnið að það þurfi að skoða það mjög vel í nefnd. Það er ýmislegt ágætt í því eins og við var að búast en ég held að það þurfi að gaumgæfa vel mörg atriði í því. Sum þeirra hafa verið nefnd hér og ég ætla ekki að fara að endurtaka hér það sem hér hefur verið sagt í síðustu ræðum. Ég ætla að nefna tvö atriði sem ég vil leggja sérstaka áherslu á og varða bæði umferðaröryggi.
    Öll vitum við að það kemur fyrir að búfé lendir úti á þjóðvegum. Af því stafar að sjálfsögðu mikil slysahætta. Það er engin önnur leið til þess að fyrirbyggja þessa slysahættu, því miður, en að Vegagerðinni sé skylt að girða með vegunum, þ.e. stofnbrautunum og halda við girðingunum og setja hlið með þeim hætti að þau hindri ekki umferð, en haldi samt búfé frá stofnvegunum. Þetta er eina leiðin sem hugsanleg er til þess að skapa þarna viðunandi öryggi.
    Það er svo sem hægt að gera bændum það að girða með veginum hver fyrir sínu landi en það er alltaf hætta á að mistök verði á. Eins þarf að loka tengivegum inn á hina fjölförnu vegi og það er eðlilegt að það sé Vegagerðin sem sjái bara um þetta og reyni að tryggja þennan þátt umferðaröryggis eins og aðra þætti. Vegagerðin reynir að koma í veg fyrir að vegir séu tepptir eða á þeim séu sérstakar slysagildrur og þetta er náskylt og eðlilegt að Vegagerðin fái þetta verkefni. Auðvitað kostar þetta peninga fyrir Vegagerðina en það verður þá að leysa. Það er ekki eðlilegt að ætla einstökum bændum eða treysta einstökum bændum fyrir því að verja vegina með þeim hætti sem óhjákvæmilegt er. Og þegar ég tala um að Vegagerðinni verði gert skylt að girða meðfram vegunum með fjárheldri girðingu, þá á ég að sjálfsögðu við fjárhelda girðingu en ekki þær rafmagnsgirðingardruslur sem Vegagerðin hefur sums staðar sett upp meðfram vegum og halda ekki skepnum af neinu öryggi og alls ekki ef um snjóalög er að ræða. Þetta verður aldrei í lagi nema Vegagerðin taki þetta verkefni yfir. Ég held að öllum bændum eða a.m.k. hér um bil öllum bændum sé mjög í mun að gripir þeirra komist ekki á fjölfarna vegi. Það er bæði af því skömm og skaði og þjáningar fyrir menn og skepnur og fyrir utan eignatjón. Það er engin leið að tryggja þetta nema yfir því sé samræmd stjórn og samræmd umsjón.

    Það er auðvelt að segja sem svo að það sé hægt að setja lög um bann við lausagöngu búfjár og á dagskránni í dag er einmitt frv. þess efnis. Ég held að það sé ekki nægilegt og sú lausn sem þar er lögð til er hið mesta klúður og ekki ástæða til að reyna þá leið. Sumar sveitarstjórnir og reyndar allnokkrar hafa prófað það að leggja á bann við lausagöngu búfjár, en það ber á það að líta að sveitarstjórn getur bakað viðkomandi bændum í sínu sveitarfélagi sérstaka bótaskyldu með því að leggja þetta bann á þannig að það mál er ekkert einfalt eða auðleyst.
    Síðan er enn eitt atriði sem gæti verið til bóta í þessu máli að við sem förum nú mikið um þjóðvegi landsins eða stofnbrautir vitum svona hér um bil að á sumum stöðum er meiri hætta á búfé á veginum heldur en á öðrum og það væri vel til reynandi að setja upp sérstök aðvörunarmerki þar um sem umferðarmerki til leiðbeiningar fyrir ökumenn og þeir ættu að sýna sérstaka aðgát á ákveðnum stöðum þar sem þessi hætta er sérstaklega fyrir hendi.
    Hitt atriðið sem ég vildi minnast á, herra forseti, er það að ekki er í þessum lögum nema að mjög litlu leyti tekið tillit til umferðar hestamanna. Reiðvegagerð hefur verið algerlega eða hér um bil algerlega forsómuð hér í landinu. Samningur var einu sinni gerður milli Landssambands hestamanna og Vegagerðarinnar. Það hefur ekki verið farið eftir honum nema að sáralitlu leyti. Kannski er það samtökum hestamanna að einhverju leyti að kenna að þeir hafa ekki fylgst nægilega vel með en ástandið eins og það er nú er algerlega óviðunandi. Ég vil að það sé tekið fullt tillit til þarfa hestamanna til umferðar um landið. Þetta er svo upprunaleg og þjóðleg aðferð við ferðalög að ferðast á hestum og það er ástæðulaust að ekki einasta hugsa ekki fyrir þessum þætti samgangna heldur hefur Vegagerðin í mörgum tilfellum beinlínis lokað fyrir þær leiðir sem hestamennirnir eru vanir að fara og með því skapað sérstaka slysahættu því að auðvitað verða menn að reyna að komast leiðar sinnar með einhverjum hætti. Nýjasta dæmið eða eitt af nýjustu dæmunum er ástandið uppi á Vesturlandsvegi í kjölfar framkvæmda þar. Það er eins og hestamenn séu réttlausir eða nánast réttlausir og hjá sumum starfsmönnum Vegagerðarinnar fá þeir ekki nema hortugheit í svör. Reiðvegagerð er fremur ódýr á langflestum stöðum, mjög ódýr, og af því þyrfti ekki að vera mikill kostnaðarauki fyrir Vegagerðina að sjá til þess að umferð hestamanna gæti verið með eðlilegum hætti og gömlum reiðleiðum haldið við eða þeim a.m.k. ekki lokað.
    Herra forseti. Ég læt máli mínu lokið og læt þetta duga í bili. Ég á ekki sæti í hv. samgn. og ég hef áhuga á að flytja brtt. um þessi efni við þetta frv. Að endingu vil ég undirstrika það sérstaklega að ég tel að það orki mjög tvímælis hve úrskurðarvald Vegagerðarinnar er gert mikið með þessu frv.