Vegalög

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 15:02:33 (722)

[15:02]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Við erum sjálfsagt öll sammála um það hér að það sé þarft verk að endurskoða girðingarlög vegna þess að aðstæður hafa breyst frá því að þau voru sett og því vil ég þakka hæstv. samgrh. fyrir að leggja hér nýtt frv. fram svo tækifæri gefist til þess að koma þar á þeim breytingum til bóta sem samstaða næst um. Ég vil taka undir það sem fyrri ræðumenn hafa hér bent á að við undirbúning hafa eingöngu komið að fulltrúar stjórnarflokkanna og það veldur því kannski að færri sjónarmið hafa komið þarna til athugunar við undirbúning frv.
    Mér eru sérstaklega ofarlega í huga girðingar meðfram vegum og vil þá benda á að mér sýnist að þörf sé jafnframt því að þetta frv. verður til meðferðar að endurskoða girðingarlög því að þar er miklu ítarlegar fjallað um girðingar en í þessu vegalagafrv. eins og eðlilegt er og mörg atriði hljóta því að byggjast á girðingarlögum um framkvæmd þeirra ákvæða sem sett eru í vegalög. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir umferð búfjár á vegum vegna þeirrar hættu sem af því stafar. Að því verða að sjálfsögðu allir að reyna að hjálpast sem þar eiga hlut að máli en það verður þó að varast að leggja of miklar skyldur á einstaklinga til þess að koma í veg fyrir þá hættu sem öllum

sem um veginn fara geta af því stafað. Þar hlýtur samfélagið að verða að taka verulegan þátt í. Það er sett í þetta frv. ákvæði um að það sé bannað að hafa búfé á vegum sem eru girtir af og það megi fjarlægja á kostnað eigenda. En eins og hér hefur áður verið vikið að þá er eitt erfiðasta atriðið í þessu sambandi viðhald girðinganna. Og þar eru viðhorf líka mjög að breytast. Við vitum að þeim jörðum fjölgar sífellt þar sem búskapur leggst af eða fara í eyði og eigandinn á heima í einhverjum fjarlægum landshluta, þá er orðið erfitt að sinna því verkefni að halda við girðingu. Og einnig má benda á að þar sem búfjárhald er ekki lengur á jörðum þannig að viðhalds girðinga er ekki þörf af þeim sökum hjá viðkomandi ábúanda þó hann sitji þar áfram þá skapar það líka kvöð á hann að halda girðingunni við.
    Ég hef nýlegt dæmi um bónda þar sem girt er meðfram vegi sem liggur í gegnum hans land og samkvæmt núgildandi lögum ber honum að halda þessari girðingu við en hún mun hafa verið girt á kostnað Vegagerðar ríkisins. En nú er girðingin orðin svo léleg og hann telur sig ekki hafa neitt gagn af því að girða hana á ný en samkvæmt lögum er gerð krafa til hans að setja þar upp nýja girðingu og leggja þar í ærinn kostnað sem hann hefur raunverulega engan ávinning af og er eingöngu baggi því að hann er ekki með neinn atvinnurekstur sem getur staðið undir slíku.
    Ég vil því koma því á framfæri að ég tel nauðsynlegt að samgn. sem fær þetta mál til meðferðar skoði ítarlega alla þessa þætti og jafnframt ákvæði girðingarlaganna og athugi hverju þar þarf að breyta til samræmis við breyttar aðstæður og þá þau ákvæði sem sett verða inn í vegalög svo að ekki skapist þar óviðunandi ranglæti.