Vegalög

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 15:08:37 (723)


[15:08]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þær góðu undirtektir sem þetta frv. hefur fengið hjá þeim þingmönnum sem til máls hafa tekið. Það er greinilegt að þeir eru allir þeirrar skoðunar að hér sé fitjað upp á nauðsynlegum breytingum á vegalögum og eins og ég tók fram í upphafi máls mín hér áðan, þá hygg ég sameiginlegt áhugamál mitt og samgn. að vandlega verði farið yfir einstök efnisatriði þessa frv. Það sem við erum að stefna að með frv. er vitaskuld að reyna að koma þessu máli í það horf að það sé hentugt í þeirri merkingu að framkvæmdin verði ódýr eins og hægt sé en á hinn bóginn standi Vegagerðin undir þeim kröfum sem eðlilegt sé til hennar að gera.
    Inn í þessi mál koma mörg álitaefni. Það er auðvitað álitamál hversu eigi að skipta ábyrgð á veghaldi eða vegagerð milli sveitarfélaga og Vegagerðar og verður að finna þar einhverja reglu. Auðvitað hlýtur að orka tvímælis hvort mörkin séu dregin nákvæmlega þar sem loks verður niðurstaðan. Hér eru settar fram skýrar reglur um það og ég geri ráð fyrir því að nefndin muni í samvinnu við sveitarfélög og Vegagerð fara yfir þær og reyna að gera sér grein fyrir því hvort um eðlilega kostnaðarskiptingu sé að ræða.
    Auðvitað eru tekjustofnar Vegagerðarinnar nú til endurskoðunar, sérstaklega á það þó við um þungaskattinn, eins og oft hefur komið fram. Ef það er álit nefndarinnar að hallað sé á sveitarfélögin hefur það auðvitað þau áhrif að nefndin leggur til að frekara fé sé þangað veitt, sem aftur hefur þær afleiðingar að minna fjármagn verður til annarra vega. Því við erum auðvitað að tala um einn sameiginlegan sjóð og ríkissjóður getur ekki vísað þeim kostnaði sem til fellur á einhvern annan og þriðja aðila. Við erum með öðrum orðum að reyna að ráðstafa opinberu fé, við erum að reyna að gera okkur grein fyrir því hvernig það nýtist sem best, út á það gengur þessi vinna.
    Ef rætt er um einstök atriði sem hér voru talin upp vil ég fyrst fjalla um ferjur. Því hefur verið slegið föstu að Vegagerðin skuli bera ábyrgð á rekstri ferju- og flóabáta. Ástæðan er einfaldlega sú að áður hafði það viðgengist um árabil að ekki var horfst í augu við það hvað reksturinn raunverulega kostaði, hver stofnkostnaður nýrra ferja raunverulega var. Afleiðingin af því er sú að á næsta ári er svo komið að stuðningur við ferjur í landinu, stofnkostnaður og rekstrarkostnaður, er milli 500 og 600 millj. kr. sem er auðvitað feiknalegt fé og sýnir að ekki hefur verið stigið nógu gætilega til jarðar í þeim efnum.
    Hér er gert ráð fyrir því að það skuli verða skilyrði fyrir því að hið opinbera styðji ferjurekstur að hann sé hluti af vegakerfi landsins eða samgöngukerfi landsins í þeim skilningi að ekki sé hægt að leggja vegi á viðkomandi staði eins og til Vestmannaeyja og Grímseyjar. Þótt við hv. þm. Árni Johnsen höfum einu sinni lagt fram þáltill. um það að athuga gangagerð til Vestmannaeyja, þá á það langt í land. Sömuleiðis er það að segja um flóabátinn Baldur að vegagerð er svo skammt á veg komin um Barðastrandarsýslu og auðvitað eyjar í Breiðafirði, að ekki er álitaefni að þar þurfi áfram að reka ferju og hefur hún ærnu verkefni að sinna.
    Á hinn bóginn, eins og fram kom hjá hv. 3. þm. Vesturl., sjáum við fram á það að Akraborgin kunni að leggjast niður einfaldlega vegna þess að jarðgöng koma undir Hvalfjörð. Það er margt sem bendir til þess einmitt nú að til slíkrar jarðgangagerðar komi vegna þess að rannsóknir á botnlagi Hvalfjarðar virðast gefa það í skyn að þar sé ekkert óvænt uppi sem komi í veg fyrir slíka gangagerð. Ég veit ekki betur en þær athuganir sem hafa farið fram á því að afla fjár til verksins á þeim forsendum sem Alþingi gerði ráð fyrir, þannig að fjárfestar standi undir stofn- og rekstrarkostnaði og endurgreiði með vegtollum gangagerðina, ætli að ganga upp.
    Um Fagranesið er það aftur að segja að sérstök nefnd er að athuga það hvað eigi að gera, hvernig eigi að standa að rekstri þess. Ef hugmyndin er sú að Fagranesið verði bílferja þarf að leggja í verulegan kostnað inn í Djúpi, hvar svo sem ferjubryggjan yrði. Það er alveg ljóst að við erum að tala þar í fyrstu lotu um tugi milljóna. Ef horfur eru á hinn bóginn á því að vegur komi yfir Kollafjarðarheiði er auðvitað hálfúrleiðis að hugsa sér að ferjan komi miklu utar í firðinum, Ísafirði, þannig að það er mikið álitamál hvað gera skuli. Það er greinilegt að verulegar fjárveitingar þurfa að koma til með þeim ferjurekstri og ég hef verið þeirrar skoðunar að skynsamlegra sé að reyna að hraða veginum inn Djúpið en að leggja fé til slíks rekstrar í framtíðinni.
    Á hinn bóginn eru þessi mál í athugun og ég hef síður en svo á móti því og vil stuðla að því að sveitarfélög og aðrir geti komist að góðri niðurstöðu. Þannig að í þessu er ekkert offors, hvorki gagnvart Akraborginni né Fagranesinu.
    Það er hins vegar það vonda við Akraborgardæmið að það var tekið svokallað kúlulán þegar hún var keypt til landsins sem olli því að ekki var farið að greiða af henni fyrr en á árinu 1992 má ég segja, frekar en á þessu ári, sem var auðvitað mjög bagalegt. Auðvitað hefði átt að vera búið að greiða hana niður með öllu ef rétt hefði verið staðið að fjárlagagerð á undanförnum árum og svo hefði verið ef Vegagerðin hefði borið ábyrgð á rekstri ferjubáta á þeim tíma. Vegna þess að forveri minn, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, spyr hver hafi borið ábyrgð á kúluláninu, þá get ég fullvissað hann um að það var ekki hann.
    Hér hefur verið rætt verulega um girðingamálin og það er eðlilegt að þau mál komi líka inn, en það verður að reyna að finna sanngjarna reglu um það hverjum beri að standa undir því að reisa girðingar og halda þeim við. Hér er gengið út frá ákveðinni reglu í þeim efnum og ég tek undir það með hv. þm. Jóni Helgasyni að eðlilegt er að taka girðingarlögin sjálf til endurskoðunar. Ég skal beita mér fyrir því að það verði gert og geri ráð fyrir því að nefndin taki þeirri ábendingu að skoða þau í sambandi við athugun á þessu frv.
    Ég man ekki hvort það var eitthvað fleira sem minnst var á, en ég hygg að ég hafi komið inn á aðalþætti málsins. Við erum að fjalla um heildarfrv. til vegalaga, við erum að undirbúa nýja löggjöf í þeim efnum. Það má auðvitað deila um það hvort flokkun vega eigi að vera nákvæmlega eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Mér finnst eðlilegt að þingnefndin kalli til Vegagerð, skipulagsyfirvöld og aðra til þess að gera grein fyrir þeim álitamálum sem hér hafa verið vakin upp, því af minni hálfu er það auðvitað alveg sjálfsagt að breyta slíkum tæknilegum atriðum í þessu frv. til þess að það megi betur fara. Hef ég svo ekki meira um þetta mál að segja að sinni.