Vegalög

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 15:18:10 (724)


[15:18]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mig langar til þess að svara hæstv. ráðherra aðeins. Í fyrsta lagi vil ég þakka honum fyrir það að hann tekur jákvætt undir það að í nefndinni geti orðið samkomulag um breytingar á frv. Ég held að það sé mjög jákvætt innlegg frá hæstv. ráðherra í málið vegna forsögu þess, að minni hlutinn hefur ekki fengið að koma neitt að undirbúningi þess.
    Ég vil líka fagna því að hann upplýsir okkur hér um það að miklar líkur séu á því að það verði af þessum framkvæmdum, með veg undir Hvalfjörð, og þá fer auðvitað allt öðruvísi með framtíð Akraborgar heldur en annars væri. En ég get ekki annað en sagt það að ég hef bara skilið það þannig og ég held að það sé fortakslaust í þessu frv. að þessi tvö skip, Akraborgin og Fagranesið, verði lögð af. Þau verða ekki rekin nema í hæsta lagi í þrjú ár, miðað við það sem sagt er í frv. Mér fannst eins og ráðherrann væri að gefa það til kynna áðan að það gilti ekki um Fagranesið. Það þarf þá að skoða málið eitthvað betur en a.m.k. það hefur verið lagt hér upp.
    Hann nefndi Akraborgina og þetta kúlulán sem honum er svo hugleikið og hann nefnir í hvert skipti sem Akraborgina ber á góma. Ég vil bara minna menn á að það er ríkissjóður sem á 65% af þessu fyrirtæki og hann hefur leyft sér það að láta þennan rekstur vera í lamasessi. Þarna hafa safnast upp dráttarvextir ár eftir ár og skuld hefur vaxið langt fram yfir það sem eðlilegt væri í staðinn fyrir að koma þessum lánum í einhverja ,,konverteringu``. Það hefur ekki verið gert og þess vegna er nú svona komið þar.
    Að lokum vil ég segja það, virðulegi forseti, að ég fagna því að hæstv. ráðherra er svona jákvæður í málinu. Ég minni á það að hann nefndi það áðan að hann hefði lagt til að menn skoðuðu það að leggja göng til Vestmannaeyja. Hann er nýlega kominn úr ferð frá Kína, ég spyr hann: Voru ráðleggingar hans um vegagerð á þeim slóðum eitthvað í líkingu við þær sem hann er að leggja fyrir hv. Alþingi ?