Vegalög

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 15:20:53 (725)


[15:20]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ef það hefði verið tæknilega mögulegt að leggja jarðgöng til Vestmannaeyja þá hefði það ekki orðið dýrari kostur hlutfallslega en sá að kaupa Herjólf eins og að því var staðið.
    Ég vil segja það um Akraborgina og Fagranesið og þessi mál almennt að við erum að bæta vegina stórkostlega. Það er auðvitað alveg ljóst að ef niðurstaðan verður sú að ekki komi til þess að ráðist verði í göng undir Hvalfjörð þá er óhjákvæmilegt að bæta veginn fyrir Hvalfjörð með öðrum hætti. Auðvitað getur það ekki gengið til langframa hvorki við Ísafjarðardjúp né milli Akraness og Reykjavíkur að verið sé að halda uppi kostnaðarsömum ferjurekstri eftir að vegirnir eru komnir í viðunandi horf. Aðrir sem að þessu máli koma geta auðvitað ekki sætt sig við þetta og íbúarnir á stöðunum sjálfum skilja að þetta gengur ekki. Auðvitað gengur það ekki. Menn vilja að vel sé farið með opinbert fé og ætlast til þess að ferjur séu lagðar niður og flóabátar þegar þeirra er ekki lengur þörf.