Vegalög

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 15:22:09 (726)


[15:22]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kemur mér á óvart ef það er mikið ódýrara að leggja jarðgöng til Vestmannaeyja og reka þau heldur en að kaupa Herjólf sem kostaði um 1.200--1.300 millj. Jarðgöng þarna út mundu áreiðanlega kosta tíu milljarða eða svo, miðað við þá kostnaðartölu sem við höfum heyrt um önnur jarðgöng.
    Ég tek auðvitað undir með ráðherra með það að vitanlega verður vegurinn fyrir Hvalfjörð bættur ef ekki verður af þessum jarðgöngum. En það er ekki þar með sagt og

það á ekki að slá því föstu fyrir fram að það verði ekki áfram samgöngur á sjó milli Reykjavíkur og Akraness. Mér finnst fráleitt að halda því fram nema að undangengnum góðum rannsóknum og athugunum á rekstri ferju hér á milli.