Vegalög

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 15:31:59 (732)


[15:31]

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég áttaði mig ekki alveg á spurningunni, hvernig hv. þm. hugsar sér að henni sé svarað. Hann er að velta því fyrir sér hvort til sé áætlun um það hvernig dæmið kemur út hjá sveitarfélögunum og ríkinu ef við berum vegalögin eins og þau liggja nú fyrir saman við það frv. sem hér liggur fyrir. Ég sagði í ræðu minni áðan að mér fyndist sjálfsagt að samgn. færi yfir þetta með Vegagerðinni. Ef menn eru á einu máli um að hallað sé á ríkið í þeim efnum, þá er alveg sjálfsagt að reyna að greiða úr því. En ef hv. þm. eru of áfjáðir í það, þá hefur það auðvitað í för með sér að ríkið hefur minna en ella til þjóðvegagerðar hjá sér. Það er svo einfalt mál.