Vegalög

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 16:02:30 (739)


[16:02]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er stórt spurt þegar menn spyrja hver beri ábyrgð á vatninu sem kemur neðan frá. Ég á ekki svar við því. En ég vil bara segja það vegna hugmynda hv. 2. þm. Vestf., um að hafa þennan hátt á að byrja á því að brúa út frá Reykjavík að sá möguleiki er veruleg stytting á vegalengd hér vestur um og fyrir alla sem fara vestur og norður um land. Ég tel að það komi mjög vel til greina. Mér er sagt að þeir sem hafa skoðað þetta mál hafi komist að þeirri niðurstöðu að sú brúargerð muni hvort sem menn fara í veginn fyrir Hvalfjörð eða ekki vera mjög raunhæf á næstu 10 árum. Þá eru menn náttúrlega búnir að stytta vegalengdina frá Reykjavík og út á land, hvort sem menn ætla norður eða vestur, mjög mikið þegar göngin væru líka komin undir Hvalfjörð.