Eftirlaunaréttindi launafólks

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 10:34:29 (741)

[10:34]
     Flm. (Guðni Ágústsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að spyrja: Hvar er allt fólkið? Hvar eru allir hæstv. ráðherrar? Ég geri kröfu til þess að alla vega verði haft samband við hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. til þess að vera við þessa umræðu því að hér er hreyft einu stærsta máli sem bíður úrlausnar í okkar þjóðfélagi og mér finnst það virðingarleysi af ráðherrum, sem varðar mjög um þennan málaflokk og hann heyrir undir, að vera ekki viðstaddir þegar mælt er fyrir svo viðamiklu frv. í þinginu.
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga sem er 6. mál á þessu 117. löggjafarþingi. Auk mín flytja þetta frv. hv. þm. Finnur Ingólfsson og Halldór Ásgrímsson. Við lögðum þetta frv. fram á síðasta þingi en þá var það ekki afgreitt. Tekið skal fram að við undirbúning þessa frv. hafa flm. notið aðstoðar Baldurs P. Erlingssonar lögfræðings og Arnars Gústafssonar viðskiptafræðings. Enn fremur aðstoðuðu okkur við XI. kafla, um fjárfestingarstefnu, þeir Bjarni Ármannsson, forstöðumaður fjárvörslu- og markaðssviðs Kaupþings, og Gunnar Birgisson hagfræðingur.
    Það er í mikið ráðist þegar þrír alþingismenn leggja í þá vinnu að semja frv. um eftirlaunaréttindi til breytinga á lífeyrissjóðakerfi landsmanna. Við gerðum okkur grein fyrir að við vorum að ráðast í viðamikið og flókið verkefni sem skiptar skoðanir væru um. Við gerðum okkur grein fyrir að það skipulag eða skipulagsleysi sem væri í landinu í dag í málefnum lífeyrissjóðanna væri niðurstaða af samkomulagi milli atvinnurekenda og launþega. Við teljum hins vegar málið svo mikilvægt að það þoli enga bið. Það er grár veruleiki að löggjöf um lífeyrissjóði og eftirlit með þeim er í nágrannalöndum komið á fyrir mörgum áratugum síðan meðan hér á landi er ekki til heildarlöggjöf um starfsemi lífeyrissjóðanna, um suma þeirra gilda að vísu lög frá Alþingi, um aðra einungis reglugerðir settar af stofnendunum sjálfum. Eftirlit og opinber skráning hefur enn fremur fram undir þetta verið afar bágborin hér á landi.
    Fyrir 17 árum síðan hóf 17 manna nefnd störf til að semja tillögur um nýskipan lífeyrissjóðsmála. Frv. varð til 1987 og á 112. þingi birtist umkomulaust frv., síðan hefur lítið um þetta stóra mál heyrst.
    Þótt lífeyrissjóðakerfið rambi í dag án fyrirheits og kóngarnir í kerfinu fordæmi nýjar tillögur hlýtur fólkið að kalla eftir björgunarbát og umræðu um þetta stærsta mál íslenskra launþega. Fólkið skynjar að kerfið gengur ekki upp og að í lífeyrissjóðunum, reknum með þessu sniði, veltur áfram ógnvænleg tímasprengja og hrikaleg kjaraskerðing verði ekkert að gert. Það má færa að því sterk rök að vandi lífeyrissjóðanna og stefnuleysi sé þegar að verða vandi einstaklinga og fyrirtækja í þessu þjóðfélagi. Það á kannski stærstan þátt í hinu neikvæða hagvaxtarskeiði síðustu sex ára, þar á ég við að lífeyrissjóðirnir bera mesta ábyrgð á hinu háa raunvaxtastigi hér á landi sem veldur því að einstaklingarnir, eigendur sjóðanna, eru margir um þessar mundir að tapa eignum sínum og gjaldþrot fyrirtækja og uppgjöf í atvinnurekstri er sprottin af sömu rót.
    Lífeyrissjóðirnir krefjast affalla og hárra vaxta af ríkispappírum, þeir glíma að vísu við sinn vanda sem verður að viðurkenna en hann er fólginn í hvernig sparifé brann upp í verðbólgu fyrri ára og stuttum starfstíma ásamt háum rekstrarkostnaði, en að vísu mjög misháum. En við skulum stutta stund setja okkur í spor launamannsins sem lætur 10% af sínum launum renna í lífeyrissjóðinn. Hann eða hún fær kannski í raun lán með tvennu móti: Annars vegar beint úr sjóðnum, hins vegar í gegnum húsbréfakerfið sem lífeyrissjóðirnir fjármagna að hluta.
    Hverjir neita oft að kaupa húsbréf nema gegn hærri kröfu um afföll? Hverjum hefur liðist á síðustu árum að standa báðum megin við borðið? Aðilar vinnumarkaðarins, vinnuveitendur og verkalýðshreyfingin, hafa sagt við ríkisstjórnina: Við gerum kröfu um vaxtalækkun. Þeir hafa brugðið sér hinum megin við borðið og sagt: Við kaupum ekki meiri húsbréf nema fá hærri afföll. Þannig hafa þeir með tvískinnungshætti knúið raunvexti upp hér á landi og bera þar þyngsta ábyrgð.
    Haustið 1991 voru afföll með þeim hætti að húsbyggjandi fékk aðeins í hendur þrjár af hverjum fjórum milljónum sem hann þó verður að borga af næstu 25 árin. Ein milljónin fór í afföll. Því miður er þetta sorgleg staðreynd sem tengist því að við verðum með almennum aðgerðum að taka á fjármálakerfi þjóðarinnar og þar eru lífeyrissjóðirnir stærsti aðilinn.
    Á fjögurra ára tímabili húsbréfakerfisins hafa verið gefin út húsbréf fyrir 44 milljarða. Ef við skjótum á meðalafföll upp á 15% hafa launþegar tekið á sig afföll upp á 6,7 milljarða kr. plús lántöku- og stimpilgjöld upp á 1,1 milljarð. Íslenskir launþegar hafa verið að gefa inn í vaxtakerfið á Íslandi andvirði 1.000--1.300 íbúða á síðustu fjórum árum. Íslenskir launþegar hafa að auki verið að tapa atvinnu sinni vegna þess að á sjö ára tímabili hafa lífeyrissjóðirnir viðhaldið raunvaxtastigi sem hvorki atvinnulífið né launafólkið þolir. Mig minnir að Benedikt Davíðsson, forseti ASÍ, hafi sagt eitthvað á þá leið, nýr í því starfi en gamalgróinn í lífeyrissjóðunum, að vaxtataka sjóðanna hefði verið há síðustu árin. Nú yrðu menn að hugsa um yngra fólkið, að yngra fólkið þyrfti vinnu og staðreyndin væri sú að ekkert atvinnulíf stæðist þessa vaxtatöku. Hvar eru efndirnar? Hefur einhver fylgt þessum orðum eftir við íslenska verkalýðshreyfingu? Hefur ríkisstjórnin reynt með markvissum hætti að ná fram raunvaxtalækkun?
    Því miður þá sýnist okkur mörgum að leiðin sé einföld. Launþegarnir og atvinnulífið þurfi að að gera þá kröfu til þessara sjóða sinna að þeir lækki kröfur sínar, vaxtakröfur sínar í ríkispappírana, um helming. Það þýddi að raunvextir á Íslandi færu á einni nóttu í sama stig og gerist í helstu viðskiptalöndum.
    Það er ótrúleg staðreynd að á sama tíma og lífeyrissjóðirnir eru orðnir stærsta aflið á íslenska peningamarkaðnum skuli þeir eigi að síður margir ekki standa við sínar skuldbindingar. Um sl. áramót höfðu lífeyrissjóðirnir yfir að ráða 171 milljarði meðan bankar og sparisjóðir höfðu í sínum fórum 170 milljarða af sparnaði landsmanna. Lífeyrissjóðirnir geyma um næstu áramót fast að 200 milljörðum. Er nokkur í vafa um að um starfsemi þessara mikilvægu stofnana, sem hirða stærstan hluta af nýjum sparnaði árlega, eða 27 milljarða kr., eigi að gilda ströng lög og þeir allir búi við strangt eftirlit? Sjá ekki hv. alþm. það í hendi sinni að þeir hafa flotið sofandi að þeim feigðarósi sem blasir við ef ekkert verður að gert? Þessi orð ættu að nægja til þess að menn átti sig á að Alþingi hefur í þessum efnum brugðist skyldu sinni hvað þetta stóra mál varðar.
    Eru menn kannski ekki þeirrar skoðunar að móta þurfi nýja fjárfestingarstefnu þar sem þetta mikla afl komi í ríkari mæli inn í atvinnulífið? Þessir peningar fólksins væru notaðir til að kaupa hlutafé og styrkja íslenskt veikburða atvinnulíf með nýrri og markvissri fjárfestingarstefnu? Skyldum við ekki þurfa á fjárfestingarstefnu að halda þar sem ný gildi taka við? Í dag er öllum peningaauðnum stefnt að því að kaupa ríkistryggðan pappír, hvort það eru peningar stóreignamanna eða lífeyrissjóðanna. Það er meinloka samtímans að verja endalaust þetta pappírskaupatímabil sem veldur hæstu raunvöxtum á Vesturlöndum eins og ég hef áður sagt og á kannski stærstan þátt í halla á ríkissjóði þegar grannt er skoðað. Sterkt atvinnulíf er styrkur hverrar þjóðar og það tryggir nýsköpun og framfarir, það tryggir góð laun og lífskjör fólksins.
    Ég minntist á það fyrr í ræðu minni að rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna í dag væri mikill. Hann mun vera 650--700 millj. en mjög mishár. Væri hægt með endurskipulagningu lífeyrissjóðanna að lækka þessa upphæð t.d. um 300 millj. á ári? Það væri ekki lítið atriði, það mundi á 10 ára tímabili spara 3 milljarða.
    Hæstv. forseti. Ég ætla þá í örfáum orðum að hlaupa yfir meginefni þessa frv. sem hér er lagt fram.
    Með frv. þessu er gert ráð fyrir að launamanni beri skylda til að greiða í eftirlaunasjóð, eins og verið hefur, en velji sér sjóðinn sjálfur og velji, jafnframt tilskilinnar lágmarks- og verðtryggingarverndar, þá viðbótarvernd sem honum hentar. Í þessu felst grundvallarbreyting þar sem launamaður ræður engu í núgildandi lífeyrissjóðakerfi um það hvar eftirlaun hans eru ávöxtuð eða hvernig. Með þessum hætti myndast samkeppni um eftirlaunaframlög launamanna með vali launamanns um eftirlaunasjóð, fara saman hagsmunir um bestu ávöxtun eftirlaunaframlagsins og heimild til ráðstöfunar þess.
    Frv. þetta leysir ekki þann ógnvænlega fortíðarvanda sem að lífeyrissjóðunum steðjar en kemur í veg fyrir frekari öfugþróun í lífeyrismálum landsmanna. Hér á landi er ekki til heildarlöggjöf, eins og áður sagði, um starfsemi lífeyrissjóða sem um þessar mundir eru 88 að tölu með eignir um sl. áramót upp á 171 milljarð kr. samanborið við 10 milljarða verðbréfaeign allra verðbréfasjóða í landinu. Um suma þessara sjóða gilda lög frá Alþingi en um aðra gilda reglugerðir og samþykktir sem settar hafa verið af stofnendum sjóðanna. Eftirlit og opinber skráning hafa til skamms tíma verið afar bágborin og hlýtur það að vera umhugsunarefni hvers vegna þessi mikilvægi málaflokkur hefur orðið út undan í lagasetningu.
    Umræðan um lífeyrissjóðakerfið hefur hingað til einkennst af gagnrýni á núverandi kerfi en minna verið um raunhæfar tillögur til úrbóta. Í núverandi lífeyrissjóðakerfi er tiltekið óréttlæti. Launamanni ber skylda til að greiða í lífeyrissjóð viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Þannig ber launamanni að greiða í sameignarsjóði sem eru misvel í stakk búnir til að standa við skuldbindingar sínar. Ákveðinn hópur launamanna má hins vegar greiða í séreignarsjóði, hina svokölluðu frjálsu lífeyrissjóði. Þrátt fyrir þá ókosti að ekki er gert ráð fyrir neinni vátryggingavernd í slíkum sjóðum hefur sjóðfélögum farið fjölgandi, m.a. vegna tortryggni á núverandi kerfi. Almennum launamönnum er óheimilt að greiða lífeyrisframlög sín í þessa

svokölluðu frjálsu lífeyrissjóði. Við getum sett okkur í þau spor að um leið og atvinnurekandinn greiðir gjöld launamannsins inn í þennan sjóð sem hann verður nauðugur viljugur að vera í þá getur hann sjálfur verið frjáls á markaðnum og valið sér annan sjóð þar sem hann á sinn sparnað sjálfur.
    Frv. þetta gerir ráð fyrir að launamanni sé skylt að greiða í eftirlaunasjóð frá 16--67 ára aldurs en velji sér sjóðinn sjálfur. Eftirlaunasjóður er sjóður sem hefur eingöngu það hlutverk að taka við eftirlaunaframlögum frá launamönnum, fjárfesta fyrir andvirði þeirra í verðbréfum og fasteignum samkvæmt kunngerðri fjárfestingarstefnu og bjóða launamanni upp á ákveðna vátryggingavernd. Eftirlaunasjóði ber síðan að greiða launamanni eftirlaun eða rétthafa vátryggingabætur eftir því sem reglugerð kveður á um. Eftirlaunasjóður er stofnaður sem hlutafélag og þarf að uppfylla tiltekin lágmarksskilyrði. Sjóðurinn hefur sérstaka stjórn, sérstakt ársuppgjör og sjálfstætt aðildarhæfi, t.d. að dómstóli.
    Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum eftirlaunasjóðs. Á aðalfundi er kosin fimm manna stjórn með meiri hluta frá félagsmönnum eftirlaunasjóðs en tveimur aðilum skipuðum af rekstraraðila. Stjórn sjóðsins hefur almennt eftirlit með að starfsemi sjóðsins sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerðar.
    Gert er ráð fyrir að líftryggingafélög, viðskiptabankar og sparisjóðir, verðbréfafyrirtæki og lífeyrissjóðir séu rekstraraðilar eftirlaunasjóðs. Um alla þessa aðila gildir víðtæk löggjöf sem kveður á um starfsemi og eftirlit með starfsemi þeirra að undanskildum lífeyrissjóðunum. Rekstraraðila ber að gera samstarfssamning við stjórn eftirlaunasjóðs. Það sem hamlar því að umsýsluþóknun verði of há miðað við afkomu eftirlaunasjóðs er samkeppni eftirlaunasjóða innbyrðis. Umsýsluþóknun fær rekstraraðili greidda af tekjum eftirlaunasjóðs. Of há umsýsluþóknun miðað við afkomu eftirlaunasjóðs leiðir til þess að launamaður leitar annað með sitt eftirlaunaframlag. Þannig er eðlilegt að ímynda sér að vinsælastur verði sá sjóður sem hefur jafnaðarlega mesta traustið og mestu ávöxtunina til ráðstöfunar til launamanns. Hvað varðar starfsemi núverandi lífeyrissjóða er í fyrsta lagi ekki gert ráð fyrir breytingum á starfsemi þeirra. Vilji stjórn lífeyrissjóðs hins vegar breyta starfsemi sjóðsins er í öðru lagi ekkert því til fyrirstöðu að því tilskyldu að þeir uppfylli skilyrði laganna um að þeir reki starfsemi sína sem eftirlaunasjóð. Í þriðja lagi getur lífeyrissjóður stofnað eftirlaunasjóð sem rekstraraðili en rekið starfsemi lífeyrissjóðsins áfram. Í fjórða lagi getur eftirlaunasjóður yfirtekið rekstur lífeyrissjóðs.
    Lagafrv. gerir ráð fyrir að eftirlaunasjóðir fjárfesti samkvæmt fyrir fram ákveðinni fjárfestingarstefnu. Meginreglan er sú að eftirlaunasjóðum er heimilt að fjárfesta 70% eigna sinna í framseljanlegum verðbréfum. Þar á meðal framseljanlegum eignarhlutum í íslenskum fyrirtækjum að tilteknu lágmarki. Hin 30% eignanna má eftirlaunasjóður m.a. fjárfesta í íbúðarhúsnæði. Eftirlaunasjóðum er heimilt að fjárfesta með lánveitingum til sjóðfélaga en ekki annarra aðila. Hverjum eftirlaunasjóði ber að fjárfesta innan ramma frv. en fjárfestingarstefna hvers sjóðs kemur fram í reglugerð hans. Launamaður velur sér eftirlaunasjóð á grundvelli reglugerðar viðkomandi sjóðs.
    Frv. gerir ráð fyrir því að tiltekin atriði séu í reglugerð eftirlaunasjóðs. Launamaður á þannig auðveldara með að bera saman reglur eftirlaunasjóða innbyrðis og réttindi sjóðfélaga samkvæmt þeim. Reglugerð eftirlaunasjóðs verður að hljóta staðfestingu fjmrh. sem gætir þess að samræmis sé gætt.
    Eins og að ofan greinir er eftirlaunasjóði skylt að hafa lágmarksvátryggingavernd. Hér er annars vegar átt við örorkutryggingu sem tryggir viðkomandi gegn slysum eða sjúkdómum bæði í vinnu og í frítíma. Tryggingin verður bæði að taka tillit til tímabundinnar örorku og varanlegrar örorku. Hins vegar er skylt að hafa lífeyristryggingu sem greiðir launamanni eftirlaun frá 67 ára aldri eða síðar svo lengi sem hann lifir en fellur niður að honum látnum. Ef launamaðurinn hefur keypt vernd sem nemur 40.000 kr. á mánuði fyrir ofangreitt tímabil fellur skylda til kaupa á lífeyristryggingu niður. Í frv. er lögð sú skylda á eftirlaunasjóð að hafa ofangreinda lágmarksvernd þar sem öllum mönnum er þörf að hafa slíka vernd óháð fjölskylduaðstæðum. Gæta verður að því að hér er einungis um lágmarksvernd að ræða sem auka þarf við svo hún teljist viðunandi. Launamanni er hins vegar ekki skylt samkvæmt frv. að hafa tryggingavernd sem samsvarar maka- og barnabótum lífeyrissjóðanna, enda háð fjölskylduástæðum og fjárhag hver sú vernd á að vera eða hvort þörf sé fyrir hana. Það er því lagt í vald hvers og eins að ákveða hvort þörf sé fyrir slíka vernd. Til að fylgjast með því að launamaður uppfylli skyldu laganna til að greiða í viðurkenndan eftirlaunasjóð og jafnframt til að gæta þess að lágmarksvátryggingavernd sé fyrir hendi skal viðkomandi launamaður skrá eftirlaunaréttindi á skattskýrslu.
    Samkvæmt frv. ber að greiða 13% eftirlaunaframlag af öllum launum. Hér er um að ræða 3% hækkun frá því sem verið hefur. Það er hins vegar háð kjarasamningum stéttarfélaga og vinnuveitenda hvernig þessi prósenta skiptist innbyrðis milli þessara aðila enda samningsatriði. Í dag er þetta hlutfall þannig að launamaður greiðir 4% en atvinnurekandi 6%.
    Í lögum um tekju- og eignarskatt er kveðið á um að eftirlaun og lífeyrir séu skattskyldar tekjur. Launamaður greiðir síðan skatt af ellilífeyri sínum þegar hann kemur til ráðstöfunar og er þannig um tvísköttun að ræða í dag. Frv. leggur til breytingar á þessari skipan skattamála þannig að framlag launamanns verði við inngreiðslu í sjóðinn undanþegið tekjuskatti. Að tilteknu hámarki er það 7% af launum. En sköttun eigi sér stað þegar launamaður fær eftirlaunaframlagið til ráðstöfunar. Verði eftirlaunaframlagið undanþegið tekjuskatti allt að 7% af launum verður hið opinbera af nær 2,5 milljörðum kr. í skatttekjum. Á móti vinnst þó ýmislegt fyrir hið opinbera. Þar vil ég nefna að staða lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins batnar verulega til lengri tíma litið og áfallnar skuldbindingar ríkisins minnka þar sem eftirlaunaframlag hækkar um 3% en skuldbindingar námu 56 milljörðum kr. árið 1989.
    Aukinn langtímasparnaður leiðir til minni neyslu sem hefur jákvæð áhrif á greiðslujöfnuðinn við útlönd. Aukinn styrkur lífeyrissjóðanna og eftirlaunasjóða til að standa við skuldbindingar sínar mun leiða til þess að framfærslubyrði ríkisins mun minnka til lengri tíma litið og þar með útgjöld Tryggingastofnunar.
    Í frv. er einnig gert ráð fyrir að allt eftirlaunaframlagið, það er 13%, sé eign launamanns og undanskot eða vanskil atvinnurekenda á því varði við almenn hegningarlög. Þessi breyting leiðir til þess að hægt er að beita að fullu refsiviðurlögum vegna 13% eftirlaunaframlagsins. Þessi breyting ætti að gera innheimtu og fullnustu refsingar virkari í framkvæmd en er í dag.
    Það er engin vafi að á síðustu árum hafa margir íslenskir launþegar verið að tapa því fjármagni sem tekið hefur verið af þeim í lífeyrissjóðina. Þarna þarf að koma til nýskipan mála.
    Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir helstu atriði þessa frv. Við flm. gerum okkur grein fyrir því að hér er fyrst og fremst um tilraun að ræða til þess að vekja þetta mál upp til umræðu bæði hér á Alþingi og ekki síður í þjóðfélaginu. Ég vænti þess að ég hafi hér vakið athygli á hinum stórkostlega vanda, hinni miklu tímasprengju sem bíður okkar ef við ekki tökum á málinu.
    Mér er það ljóst að þetta verk verður að vinna í samvinnu við marga aðila. En mín lokaorð eru gamalt spakmæli þar sem segir að sú saga sem lýsir tilraunum manna til umbóta á heiminum skrái eina staðreynd stórum stöfum. Hún er sú að sé beitt þvingunum vekur það þrjósku og tilganginum verður ekki náð. Sú stefna sem hrósa á sigri verður að styðjast við siðferðilegar fortölur og skírskotun til mannlegrar skynsemi. Ég vænti þess að ég hafi hér í ræðu minni af hógværð reynt að höfða til mannlegrar skynsemi og mikilvægi þess að menn endurskoði lífeyrissjóðakerfið í heild sinni. Og ég fagna því að til þessarar umræðu eru mættir bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh., svo maður tali nú ekki um þann sem tilbúinn er að hætta stólnum sínum, hæstv. umhvrh., sem hér situr ásamt hæstv. heilbrrh. Ég vænti þess að hér verði umræður um þetta mál og að þeim loknum verði þessu þingmáli vísað til efh.- og viðskn.