Eftirlaunaréttindi launafólks

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 11:07:00 (743)


[11:07]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það er engin nýlunda að gerðar séu athugasemdir við núverandi lífeyrissjóðakerfi. Það er reyndar rétt eins og hér kom fram að mál hafa komið inn í þingið fyrr sem tengjast þessu og ég held að það sé ekki rétt að vera að fara út í neina togstreitu í þeim efnum. Hins vegar er náttúrlega grundvallarmunur á því máli sem hér liggur fyrir og þáltill. tveggja þingmanna Sjálfstfl. og rétt að minna á í því sambandi að hv. þm. Guðni Ágústsson lagði fram þáltill. fyrir nokkrum árum síðan sem gekk í þessa veru einnig. En ég sé ekki að það þjóni miklum tilgangi í sjálfu sér að vera með togstreitu um það hver eigi málið.
    Hins vegar er það svo, eins og kom fram í máli hæstv. fjmrh., að árið 1976 var skipuð 17 manna nefnd sem gera átti tillögur um nýskipan í lífeyrissjóðakerfinu og eins og fram kom hjá hæstv. fjmrh. skilaði nefndin áliti árið 1987 þar sem gerð var tillaga um samræmda löggjöf um starfsemi lífeyrissjóðanna.
    Um þessa tillögu nefndarinnar hefur ekki myndast pólitísk samstaða. Það er kannski einkum þrennt sem deilan snýst um. Í fyrsta lagi að það sé of víðtæk heimild sem þar er veitt í lögum. Í öðru lagi að það frv. gangi of skammt til þess að finna tillögu til lausnar á fortíðarvanda lífeyrissjóðanna. Og í þriðja lagi að tillögur þess frv. séu ekki ásættanlegar að því er að eftirlitinu snúi. Staðreyndin er hins vegar sú að þegar þetta frv. er skoðað þá tekur það á öllum þessum þáttum nema ef vera kynni á fortíðarvanda. Það er raunar rétt að þetta frv. tekur ekki á fortíðarvanda lífeyrissjóðanna enda veit ég satt að segja ekki, hæstv. fjmrh., hvernig menn ætla að taka á þeim vanda. Er þessi ríkisstjórn vön að takast á við ýmsan fortíðarvanda sem er mun minni í sniðum en fortíðarvandi sá sem hefur safnast upp í lífeyrissjóðakerfinu. Ég held því að það sé óviðráðanlegur vandi nema með stórkostlegri hækkun iðgjalda eða verulegri skerðingu á útgreiðslum úr sjóðunum.
    Í skýrslu þeirri sem bankaeftirlit Seðlabankans gaf frá sér í nóvember árið 1992 er sagt að það séu starfandi 88 lífeyrissjóðir í landinu. Þar af voru 9 lífeyrissjóðir sem ekki taka lengur við iðgjöldum. Af þessum 88 sjóðum teljast 76 vera sameignarsjóðir og 12 séreignarsjóðir. Af sameignasjóðunum eru 17 með ábyrgð ríkissjóðs, sveitarfélaga og ríkisbanka, 3 með ábyrgð hlutafélga og 56 án ábyrgðar launagreiðanda eða annarra aðila. Síðan er gerð nákvæm grein fyrir því hver sé eignastaða og greiðslustaða þessara sjóða. Og í fáum orðum sagt kemur það skýrt fram að allir sjóðirnir, nema ef vera kynnu tveir þeirra, eru í raun og veru gjaldþrota og má furðu sæta, þegar það er skoðað hversu gríðarlegir fjármunir velta í gegnum lífeyrissjóðakerfið og hver staða lífeyrissjóðanna er í raun og veru, að það skuli ekki vera til nein heildarlöggjöf um lífeyrissjóðakerfið í landinu. Þetta frv. gerir ekki ráð fyrir því að um lífeyrissjóðakerfið sé sett heildarlöggjöf. Hins vegar gerir þetta frv. ráð fyrir því að tilteknum þætti, vali einstaklinganna um lífeyrissparnað sé komið í ákveðinn farveg og þar séu nákvæm og greinargóð lög sem um það gilda.
    Eins og ég segi, þá kemur það fram í þessari skýrslu að það vantar mjög mikið upp á að lífeyrissjóðirnir geti staðið undir þeim skuldbindingum sem þeir hafa tekið að sér. Í þeim lífeyrissjóðum þar sem ekki er um ríkisábyrgð að ræða eða ábyrgð sveitarfélaga eða ábyrgð ríkisbankanna, þá blasir í raun og veru ekkert annað við en að á næstu árum verði stórkostleg skerðing á réttindagreiðslum til þeirra sem þar eiga rétt eða að það þurfi verulega að hækka framlagið inn í lífeyrissjóðina. Hins vegar geta allir þeir aðilar, sem eru í lífeyrissjóðum þar sem ríkisábyrgð er eða ríkisbankarnir bera ábyrgð eða sveitarstjórnir eða sveitarfélögin bera ábyrgðina, sofið rólegir vegna þess að þeir hafa sinn rétt að fullu tryggðan. En það eru bara í þessum tilfellum alveg sárafáir sjóðir.
    Þess vegna hafa stjórnir lífeyrissjóðanna á undanförnum árum farið á leið að skerða verulega rétt þeirra sem hafa átt rétt í lífeyrissjóðunum. Í svari því sem ég fékk frá hæstv. fjmrh. við fyrirspurn minni hér á síðasta þingi, þá kemur það fram að í SAL-sjóðunum hefur orðið á undanförnum árum um verulega réttindaskerðingu að ræða bæði með breytingum á útgreiðslum og eins með reglugerðarbreytingum er snerta makalífeyri.

    Þeir sem sitja í stjórnum þessara sjóða eru þeir sömu aðilar sem síðan koma og gera sífellt auknar kröfur um að ríkisvaldið standi við skuldbindingar er snúa greiðslum úr almannatryggingunum, svo sem láglaunauppbót, orlofsuppbót, desemberuppbót og þannig mætti lengi telja. Og árlega eru kröfur frá þessum sömu aðilum sem sitja í stjórnum lífeyrissjóðanna og eru að skerða rétt einstaklinganna sem þar eiga rétt. Þessir sömu aðilar gera kröfur um það að frítekjumarkið gagnvart útgreiðslum úr lífeyristryggingunum sé hækkað sem þýðir í raun og veru að það er verið stórkostlega að auka á útgjöld ríkissjóðs. Haldi menn áfram á þessari braut og fari menn þessa leið, þá mun hér í næstu framtíð verða sprenging í lífeyristryggingum og sprenging í þeim útgjöldum sem ríkissjóður þarf að standa undir er snertir lífeyristryggingarnar. Það er því orðið mjög knýjandi að nú þegar verði tekið á og lífeyrissjóðakerfinu komið í fastan farveg. Hér er bent á þá leið, að menn geti valið sér eigin eftirlaunasjóði án allrar ríkisábyrgðar, en það er gerð sú krafa að eigendurnir sem skipta með sér stjórnarsetunni í sjóðunum og eigendur sjóðanna geti haft mun meiri áhrif á hverjir sitja í stjórn, hvernig þeim fjármunum sem í sjóðunum eru er ráðstafað þannig að ábyrgðin er færð yfir á eigendurna sjálfa.
    Tilgangur þessa frv., eins og ég hef komið að, er ekki sá að takast á við fortíðarvandann. Hann er fyrst og fremst sá að breyta því fyrirkomulagi sem nú ríkir í skipun lífeyristrygginga landsmanna og færa það yfir í nútímalegra horf með lagasetningu um starfrækslu eftirlaunasjóða þar sem lífeyrissjóðir, líftryggingafélög, viðskiptabankar, sparisjóðir og verðbréfafyrirtæki geta tekið að sér starfrækslu slíkra sjóða.
    Þá skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli að einstaklingarnir sem eru að spara geti valið hvar þeir vilja ávaxta þá fjármuni sem þeir í raun og veru eiga. Í núgildandi kerfi ræður einstaklingurinn engu um þetta. Hann er skyldaður til að greiða inn í ákveðinn lífeyrissjóð, lífeyrissjóð sem er í raun og veru gjaldþrota og þegar hann greiðir inn sitt framlag þá veit hann að hann á von á því að það verði skert þegar það er greitt út. Auðvitað er ekki við slíka hluti hægt að búa.
    Í þessu frv. er mótuð mjög skýr og afdráttarlaus fjárfestingarstefna fyrir eftirlaunasjóðina.
    Eitt af því sem veikir stöðu atvinnulífsins nú er það hversu sparnaður í þjóðfélaginu er lítill og þeir ógnvænlegu erfiðleikar, sem lífeyrissjóðakerfið stendur núna frammi fyrir, munu þegar fram líða stundir þýða stórkostlega aukin útgjöld í almannatryggingunum. Eftirlaunasjóðunum er gert skylt að fjárfesta að lágmarki 5% af eignum sínum í hlutafélögum eða sambærilegu félagsformi, enda séu engar hömlur í viðskiptum eða eignarhlut í félaginu. Eftirlaunasjóðir mega hins vegar ekki eignast meira en 10% eignarhlut í einstökum félögum með eða án atkvæðisréttar. Skýr fjárfestingarstefna er mótuð fyrir eftirlaunasjóðina, þar sem gert er ráð fyrir að meginreglan sé sú að eftirlaunasjóðunum sé heimilt að fjárfesta 70% eigna sinna í framseljanlegum verðbréfum, þar á meðal framseljanlegum eignarhlutum í íslenskum fyrirtækjum að tilteknu lágmarki.
    Hæstv. fjmrh. kom inn á það áðan hvernig tvísköttunin í núverandi lífeyrissjóðakerfi gengur fyrir sig. Þær upplýsingar sem þar komu fram voru að sönnu athyglisverðar, ef það eru aðeins um 10% sem af þessum fjármunum verða fyrir tvísköttun. Það er full ástæða til að skoða þessa hluti mjög gaumgæfilega af hálfu nefndarinnar. Hins vegar gerir þetta frv. ráð fyrir því að eftirlaunaframlagið sé hækkað um 3% og fallið frá tvísköttuninni. Og ef þessi leið yrði valin, þá eru menn í raun og veru að styrkja þann sjóð sem er Lífeyrissjóður ríkisstarfsmanna verulega með hærri inngreiðslum og þannig erum við í raun og veru að taka á þeim fortíðarvanda sem að þeim sjóði snýr. Ef hins vegar einstaklingarnir snúa sér með 13% framlag til annarra lífeyrissjóða þá er hættan sú að eftir standi lífeyrissjóðir sem erfitt verður að leysa fortíðarvandann fyrir.
    En hæstv. fjmrh. lét þess getið í ræðu sinni hér áðan að hann vildi að nefndin skoðaði málið allt gaumgæfilega og það er í sjálfu sér gott því ég held og er sannfærður um að hér er á ferðinni mjög athyglisvert mál, mál sem full ástæða er til að skoða. Og þrátt fyrir allar ágætar þáltill., þá er þetta mál miklu þroskaðra heldur en þál. og ég spyr hæstv. fjmrh.: Komi það nú í ljós í skoðun nefndarinnar að þau atriði sem í þessu frv. eru séu raunverulega til bóta og það sé trú manna að þetta frv. sé leið til að losa að vissu leyti þá einstaklinga, sem nú greiða inn í gjaldþrota lífeyrissjóði, út úr þeim vítahring sem þar er skapaður og taki á vandamálum lífeyrissjóðakerfisins í landinu að vissu marki, er þá hæstv. fjmrh. tilbúinn til að stuðla að því með stjórnarliðinu og stjórnarandstöðuliðinu hér á þingi að þetta frv. geti fengið afgreiðslu á þinginu?