Eftirlaunaréttindi launafólks

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 11:44:51 (750)

[11:44]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Það verður margt á þessum fallega haustmorgni til þess að gleðja hv. þm. Finn Ingólfsson. Hann gleðst yfir stuðningi hv. þm. Árna M. Mathiesens við þetta ágæta frv. sem hér liggur fyrir. Ég vil auka á gleði hans með því að lýsa því yfir líka að ég er sammála grundvallarhugmyndunum í því frv. sem hér liggur fyrir. Ég hygg að eftir þær umræður sem hér hafa farið fram þá sé ljóst að það er víðtæk samstaða í þinginu fyrir því að breyta kerfinu í þá veru sem fram kemur í þessu frv. og í þáltill. og grg. með henni sem hv. þm. Árni M. Mathiesen flutti með félaga sínum. Ég tel að það frv. sem hér liggur sé vel unnið og það sé gríðarlega mikil vinna sem í það hefur farið og ljóst að flm. hafa vandað til málatilbúnings alls. Frv. gerir ráð fyrir því að eftirlaunakerfið eins og það er í dag sé fært til nútímalegra horfs og í svipað kerfi og ríkir víða erlendis en þar hefur verkalýðshreyfingin fagnað breytingum í þessa veru. Frv. gerir ráð fyrir því að þó að launamanni sé að sjálfsögðu áfram skylt að greiða í eftirlaunasjóði þá hefur hann hins vegar valfrelsi til þess að kjósa sjálfur hvert hann greiðir. Það tel ég vera mjög mikilvægt og mikla framför. Ég held líka að með þeim hætti sé líklegt að þegar upp verður staðið þá verði meðaltalsávöxtun á iðgjöldum greiðenda meiri. Í frv. er líka gert ráð fyrir nýbreytni sem er löngu kominn tími á að verði tekin hér upp, sem felst í því að með því að gerast aðili að slíkum sjóði geti menn um leið keypt sér ákveðna lágmarkstryggingavernd sem í fyrsta lagi gæti samsvarað þeirri vernd sem er núna við lýði í kerfinu, en jafnframt ef menn kjósa svo þá geta þeir valið sjálfir að stærri hluti ávöxtunarinnar fari í að afla þeim meiri verndar. Það finnst mér vera mjög mikilvægt og tel að það geti gefið mönnum möguleika á að búa sér áhyggjulausari elli heldur en menn geta í dag.
    Ég tel því að þau nýmæli sem felast í þessu frv. horfi mjög til betri vegar. Nú er það auðvitað svo að lífeyriskerfið í dag er í miklum ólestri og eins og ég hygg að komi fram í grg. flm. þessi nýbreytni getur ekkert gert til þess að skafa upp þann vanda en hún snýr hins vegar ofan af þróuninni og kemur í veg fyrir að það aukist á vandann. Ég held að sá vandi sé svo gríðarlegur að það verði mjög erfitt fyrir ríkisvaldið að takast á við hann og ég held að því fyrr sem menn leggja út á þessa braut, þeim mun betra fyrir þjóðfélagið allt.