Eftirlaunaréttindi launafólks

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 11:47:55 (751)


[11:47]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé hreyft afar mikilvægu máli með mjög athyglisverðum hætti. Á bak við þennan málatilbúnað er mikil vinna og ber að þakka þá vinnu. Ég tel að hér sé á ferðinni afar flókið mál sem þarfnast ítarlegrar skoðunar og tel að þetta þingmál eins og það er búið í hendur þinginu sé verulega mikilsvert framlag til þessarar skoðunar. Þetta frv. tekur á mjög mörgum málum sem eru þannig vaxin að ég hef sjálfur áhuga á því með hvaða hætti frv. gerir ráð fyrir því að á þeim málum sé tekið. Ég vil þá geta sérstaklega um umfjöllun frv. um skylduaðild að tilteknum lífeyrissjóðum og þróun í frjálsræðisátt sem þar er tekið á. En ég vil ekki síður geta um það efnisinntak frv. sem kemur til með að hafa mest áhrif á efnahagsumhverfi íslensks atvinnulífs en það eru ákvæðin um þátttöku lífeyrissjóðanna eða eftirlaunasjóðanna í atvinnulífinu.
    Það vill svo til að þátttaka lífeyrissjóðanna í atvinnulífinu ræður miklu um það umhverfi sem atvinnulífið þrífst í og eins og það ástand er nú þá eru lífeyrissjóðirnir fyrst og fremst athyglisverðir í atvinnulífinu vegna þess að þeir eru þar mestmegnis fjarverandi. Þeir koma lítið við sögu í beinni fjárfestingu í atvinnulífinu.
    Ég held að ég fari rétt með þær tölur að heildareignir lífeyrissjóðanna sú um 158 milljarðar, það kemur fram raunar í þskj, og ég hygg að fjárfestingar lífeyrissjóðanna í áhættufjármunum séu u.þ.b. 2,7 milljarðar af þessum heildareignum upp á 158 milljarða. Þetta þýðir það í raun og veru að örlög atvinnufyrirtækja skila sér ekki inn í fjárhag lífeyrissjóðanna með mjög beinum hætti. Langmestur hluti af eignum lífeyrissjóðanna er bundinn verðbréfum ríkissjóðs, ríkisbréfum með einum eða öðrum hætti. Ég hygg að það sé ekki fjarri lagi að þær eignir nemi 80--90 milljörðum sem eru þannig bundnar í bréfum ríkissjóðs. Þegar þetta er borið saman, annars vegar eign lífeyrissjóðanna í ríkisbréfum og hins vegar eign þeirra í hlutabréfum, þá er augljóst að lífeyrissjóðirnir eiga ekki eðlilegra hagsmuna að gæta í atvinnulífinu og skilaboðin sem koma frá lífeyrissjóðunum til stjórnvalda bera þess merki. Þar verður oft um að ræða mótsagnakennd skilaboð eins og hefur raunar komið mjög skýrt fram í máli flm. þessa frv. Það er ekki óalgengt hygg ég að víðast hvar erlendis sé allt að 5% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóða varið til fjárfestingar í áhættufjármunum eða hlutabréfum. Í þessu frv. er ráð fyrir því gert að 5% að lágmarki af eignum eftirlaunasjóðanna skuli fjárfest í íslensku atvinnulífi.
    Ef við lítum svo til að ráðstöfunarfé þessara 88 lífeyrissjóða hafi árið 1991 numið 30 milljörðum og reiknum með að 5% af þeirri upphæð fari til fjárfestingar þá sjáum við að á tveimur árum færi sú fjárfesting fram yfir það sem nú er heildareign lífeyrissjóðanna í hlutabréfum. Þannig að það er ljóst að með þeim hugmyndum sem hér eru settar fram mundi þátttaka lífeyrissjóðanna í atvinnulífinu gjörbreytast og þau skilaboð sem í kjölfar af þessum breytingum mundu koma frá lífeyrissjóðunum til stjórnvalda um þróun atvinnulífsins mundu bera þess merki að lífeyrissjóðirnir ættu meiri hagsmuna að gæta í atvinnulífinu.
    Þetta vildi ég láta koma fram. Ég tel að hér sé tekið á mjög athyglisverðu máli og legg til að það fái gagngera skoðun og lýsi því yfir hér með að mjög mörg atriði í þessu frv. eru mér að skapi og ég tel að þau komi til með að vera verðugt framlag til umræðunnar um þetta mjög mikilvæga atriði sem snertir íslenskt atvinnulíf og íslenskt efnahagslíf í heild.