Eftirlaunaréttindi launafólks

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 11:53:32 (752)


[11:53]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Þetta frv. sem hér er til umræðu hefur fengið ákaflega góðar viðtökur í umræðunum í morgun. Eftir því sem ég hef hlustað þá hafa menn ekki gagnrýnt mikið þetta mál. Ég held að það sé lofsvert að velta þessum málum fyrir sér. Lífeyrissjóðamál okkar Íslendinga eru ekki í góðu lagi. Sjóðirnir eru of margir, kóngaveldið of mikið o.s.frv. Ég held að þetta frv. sé að mörgu leyti mjög vel unnið og það hefur verið lögð geysimikil vinna í að setja það saman. Það er út af fyrir sig lofsvert og margt í þessu frv. er áreiðanlega til bóta. Margt af því er áreiðanlega ástæða til að skoða með opnum huga.
    Ég finn hins vegar á þessu máli æðistóran galla. Mér finnst málið í heild sinn eins og það er sett fram bera of mikinn keim af einstaklingshyggju og það sem mér finnst vanta í þetta frv. er fyrst og fremst meiri félagshyggja. Ég er félagshyggjumaður en þetta finnst mér bera nokkurn keim af einstaklingshyggju sem hér er fram sett. ( Umhvrh.: Er Guðni Ágústsson orðinn frjálshyggjumaður?) Hann er mikill einstaklingshyggjumaður. Ég vil nú ekki nota svo svívirðilegt orð um einn besta vin minn að fara að kalla hann frjálshyggjumann. Það er búið að eyðileggja það orð og gera það að svo miklu skammaryrði að ég fer ekki að nota orðið frjálshyggjumaður um einn besta vin minn. ( Gripið fram í: En um frændur þína?) Ég get hins vegar notað það um suma frændur mína.
    En því stend ég hér upp að ég vil láta það koma fram að ég styð þetta frv. ekki í öllum greinum og það er vegna þess að í það vantar nauðsynlega félagshyggju. Ég held að það hefði nú ekki haft neitt vond áhrif á frv. þó hinir ágætu höfundar þess hefðu haft meira samráð við lífeyrissjóðina heldur en mér sýnist hér hafa verið gert. Af því hvað félagshyggjan stendur tæpt í þessu máli þá styð ég það ekki.