Tekjuskattur og eignarskattur

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 12:21:42 (762)


[12:21]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls um þetta mál góðar undirtektir. Ég vil kannski gera það að veganesi mínu til þeirrar nefndar sem fær málið til umfjöllunar að í grg. er varpað fram þeirri hugmynd ef þetta frv. verður að lögum þá verði með tekjur af útleigu eigin húsnæðis, sem verða umfram leigugjöld, farið samkvæmt ákvæðum laganna um skatta og tekjur utan atvinnurekstrar. Þetta er það atriði þessarar grg. sem kannski orkar tvímælis og ég tel að það væri full ástæða til þess fyrir nefndina að skoða þetta mál mjög rækilega og væri fyrir mitt leyti reiðubúinn sem 1. flm. að líta svo á að þar kæmu fleiri kostir til greina.
    Það kom fram í máli hv. 6. þm. Norðurl. e. að í meðferð frv. á 116. löggjafarþinginu þá var þessu frv. vísað til umsagnar og bárust tvær umsagnir ef ég man rétt, þá hafi þar gætt misskilnings og ég hygg að það sé alveg hárrétt hjá honum. Þar var gerð tillaga um breytingu á frv. en sú brtt. benti til þess að umsagnaraðilinn hefði lesið frv. afar flausturslega ef hann hefur lesið það á annað borð. Þannig að ég legg til að hugsanlega mætti vísa þessu frv. aftur til umsagnar þó það sé efnislega nákvæmlega það sama, eins og það var á síðasta þingi og í lok máls míns hér vil ég leggja til að frv. verði vísað til hv. efh.- og viðskn.