Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 13:00:51 (763)

[13:00]
     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um að kanna kosti þess að gera landið að einu kjördæmi í kosningum til Alþingis. Ég mæli fyrir tillögunni sem 1. flm. en meðflm. minn er hv. 11. þm. Reykv., Finnur Ingólfsson.
    Tillögugreinin hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að kjósa nefnd tveggja fulltrúa frá hverjum þingflokki til þess að skoða kosti þess fyrirkomulags að landið verði eitt kjördæmi í kosningum til Alþingis.
    Sérstaklega verði kannað hvernig þetta fyrirkomulag hefur verið framkvæmt í þeim löndum sem við það búa.
     Þá verði hugað að því á hvern hátt þessi breyting geti tengst hugmyndum um tilfærslu verkefna frá ríkinu til héraða.``
    Í grg. segir m.a.: ,,Ljóst er að enn á ný er að hefjast umræða um skiptingu landsins í kjördæmi í kosningum til Alþingis. Það er eðlilegt þar sem að hér er um að ræða málefni sem hlýtur að vera til stöðugrar endurskoðunar. Um áratuga skeið hefur verið byggt á því að visst misvægi sé milli landshluta

varðandi atkvæðavægi. Fyrir því hafa á hverjum tíma verið færð rök sem sæst hefur verið á. Á það skal hins vegar bent að við síðustu breytingu á kosningaákvæðum stjórnarskráinnar og kosningalögum var jafnað að fullu milli flokka.``
    Sú breyting, þ.e. að jafna á milli flokka en halda áfram misvægi á milli landshluta og kjördæma er í raun órökrétt. Þar er verið að reyna að samræma hluti sem eru ósamræmanlegir. Út úr því kemur sá óskapnaður sem núverandi skipan er. Þrátt fyrir jöfnun á milli flokka á landsvísu er skipting þingmanna á milli flokka í einstökum kjördæmum álíka og úrdráttur í happadrætti eða hver kannast ekki við þá rúllettu sem getur farið af stað eftir til þess að gera litla breytingu í einu kjördæmi.
    Til þess að nefna dæmi get ég nefnt að ef Framsfl. hefði fengið 35 atkvæðum færra en hann fékk við síðustu kosningar í Norðurl. e. hefði hann verið með tvö þingmenn af sjö í kjördæminu með 36% atkvæða. Sjálfstfl. með 25% atkvæða hefði hins vegar fengið þrjá af sjö. Í það minnsta fjórir þingmenn í öðrum kjördæmum hefðu einnig víxlað sætum og væntanlega flakkarinn líka þó þar hefðu engar breytingar orðið á fylgi stjórnmálaflokka.
    Hér er um að ræða kerfi sem er ógegnsætt og ekki líklegt til þess að stuðla að trausti almennings á kosningaforminu.
    Þá vil ég benda á að sú ákvörðun sem tekin var við síðustu breytingu að jafna að fullu milli flokka setur þeim möguleikum sem til staðar eru varðandi kosningaform verulegar skorður. Ýmsir þeir möguleikar sem nefndir hafa verið, svo sem einmenningskjördæmi, blönduð aðferð þar sem þingmenn væru að hluta kosnir af landslista í einu kjördæmi og að hluta í smærri kjördæmum, mundi ekki njóta sín við slík skilyrði. Í það minnsta ekki ef við göngum út frá flokkaskipun í þá veru sem hún er í dag.
    Ég varpa þeirri spurningu til þeirra sem aðhyllast þessar aðferðir hvort þeir telji að pólitískur vilji muni vera til þess að hverfa frá þessu skilyrði, þ.e. fullri jöfnun á milli flokka.
    Hér er um að ræða grundvallaratriði og niðurstaðan í þessu máli mun óhjákvæmilega setja mark sitt á umræðuna í framhaldinu.
    Ég sagði hér áður að það hefði verið pólitísk sátt um að hafa nokkurt ójafnvægi milli landshluta. Við síðustu breytingu var gengið út frá því að meiri hluti þingmanna kæmi ekki frá kjördæmunum tveim af suðvesturhorninu. Krafan um frekari jöfnun á milli landshluta er hins vegar það ákveðin nú að það eru ekki neinar líkur á að þessu markmiði verði viðhaldið við næstu breytingu. Hér erum við komin að öðru grundvallaratriði sem verður að horfast í augu við, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Og það er vendipunktur í þessari umræðu ef tekin væri ákvörðun um það að meiri hluti þingmannanna kæmi af þessu svæði. Það er því afar mikilvægt að þær breytingar sem fram undan eru dragi á jákvæðan hátt úr þeirri spennu sem óneitanlega er til staðar milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Hugmyndir í þá átt að jafna atkvæðisréttinn á grundvelli núverandi kjördæmaskipunar eða með því að fjölga kjördæmum í Reykjavík og Reykjanesi ganga hins vegar í þveröfuga átt. Út frá sjónarhóli landsbyggðarinnar væri það sú versta staða sem upp gæti komið. Þá væri komin upp sú staða að meiri hluti þingmanna liti á það sem skyldu sína að vinna sérstaklega að hagsmunum þessara tveggja kjördæma. Hætt er við að með því væri enn aukið á kjördæmatogstreitu. Það er því skoðun flm. þessarar tillögu að tímabært sé að skoða kosti og galla þess að gera landið allt að einu kjördæmi. Það kunni að vera sú leið sem mest sátt geti náðst um og komist næst því að upphefja héraðaríg í starfsemi löggjafarsamkomunnar.
    Hér er í sjálfu sér ekki um nýja hugmynd að ræða. Hún hefur verið í umræðunni af og til á þessari öld. Þá er vert að geta þess að á árunum 1916--1934 var helmingur þingmanna í efri deild kosinn á landslista þar sem landið var allt í raun eitt kjördæmi. Það sem er nýtt í þessari umræðu nú er það að henni er ekki síður hreyft af landsbyggðarmönnum en fólki á höfuðborgarsvæðinu. Til að mynda var flm. tillögu í þessa veru á landsfundi Sjálfstfl. af landsbyggðinni.
    Sérstaklega er nauðsynlegt að tengja þessa umræðu hugmyndum um að flytja aukin verkefni frá ríkinu til héraðanna. Það gæti verið lykillinn að því að ná samstöðu um þessa leið. Við þá breytingu mun umfjöllun um mörg af þeim verkefnum Alþingis sem hafa mesta skírskotun til sérhagsmuna einstakra landshluta væntanlega flytjast heim til héraðastjórna. Þetta er jafnframt sá þáttur í starfi Alþingis sem stæði næst framkvæmdarvaldinu og samkvæmt eðli máls krefst nánastra tengsla við íbúa einstakra landshuta. Og ég vil taka skýrt fram að í mínum huga er þetta grundvallaratriði ef menn vilja skoða þá leið að gera landið að öðru leyti að einu kjördæmi í kosningum til Alþingis.
    Þessi umræða hefur að nokkru verið tengd umræðu um fækkun þingmanna. Það má hins vegar ekki gera það að neinu aðalatriði málsins, því hvort þingmenn eru t.d. 53 eða 63 getur ekki ráðið neinum úrslitum um skilvirkni löggjafarstarfsins. Í þessu sambandi má þó benda á að þegar fjölgun þingmanna hefur átt sér stað, þá hefur hún ráðist af pólitískum málamiðlunum vegna kjördæmabreytinga en ekki af séðri þörf.
    Við þá könnun sem hér er farið fram á þarf sérstaklega að kanna hvernig þetta fyrirkomulag hefur reynst í þeim löndum sem við það búa. Í okkar nágrenni má nefna Holland og Ísrael. Eins og allar aðrar aðferðir, þá hefur þessi aðferð bæði kosti og galla. Gallarnir eru m.a. þeir að hætta er á að við val á framboðslista verði flokksræðið sterkt. Það er því nauðsynlegt að kanna hvaða ráð eru tiltæk til þess að vinna á móti því. Þar má nefna sameiginlegt prófkjör, uppröðun á kjörseðli o.fl. Þá er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, hvaða þröskuld þarf að setja varðandi kjörfylgi til þess að framboð komi manni á þing.

Við þessa könnun væri einnig eðlilegt að skoða þann möguleika að kjósa eftir þýska kerfinu svokallaða, þ.e. blandaðri aðferð þar sem bæði væri um að ræða kjör af landslista og í kjördæmum. Ég hef hins vegar bent á það fyrr í máli mínu að framkvæmd á slíku gæti verið annmörkum háð ef jafna á að fullu milli flokka.
    Virðulegi forseti. Í umræðu um kjördæmamálið að undanförnu hefur komið í ljós að það er áhugi fyrir því í öllum stjórnmálaflokkum að kanna þá leið sem hér er til umfjöllunar. Breytingar á kosningalögum og kjördæmaskipan eru mál sem eru þess eðlis að ekki er líklegt að afstaða til þeirra ráðist eftir flokkspólitískum línum. Það er því eðlilegt að allar leiðir verði skoðaðar á málefnalegan hátt áður en nokkur ákvörðun er tekin. Flutningur þessarar tillögu er liður í því að svo megi verða. Hún beinist að því að sá möguleiki að gera landið að einu kjördæmi í kosningum til Alþingis og flytja þá þætti sem hafa verið á höndum alþingismanna og standa næst byggðunum heim í héruðin, hún miðar að því að þessi leið verði skoðuð og geti orðið gjaldgeng í þeirri umræðu sem er fram undan.