Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 13:22:16 (767)

[13:22]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil láta það koma alveg skýrt fram strax að ég styð ekki hugmyndina um að landið verði gert að einu kjördæmi. ( Gripið fram í: Datt aldrei nokkrum manni í hug.) En hins vegar hef ég ekkert á móti því að nefnd sé sett í málið til að skoða kosti og galla þess að gera landið að einu kjördæmi. Það er vegna þess að ég tel að gallarnir séu svo augljósir og svo yfirgnæfandi að það sé engin hætta á því að það verði niðurstaða nefndarinnar að heppilegt sé að fara þessa leið.
    Ég tel að gallarnir séu fyrst og fremst þeir að auka mjög flokksræði. Það kann að styrkja foringja stjórnmálaflokkanna ef þeir geta ráðið því sjálfir persónulega hverjir verði með þeim í þingflokkum, en það held ég að sé ekki heppileg þróun. Ég hef ekkert á móti umræðu um kosningalög og ég tel að hún muni hvort sem við viljum eða viljum ekki verða hér talsverð sem eftir lifir kjörtímabilsins. Ég tel að forustumönnum núv. stjórnarflokka sé það mjög brýn pólitísk nauðsyn að gera breytingar á kjördæmaskipan eða kosningalögum, þ.e. fá fram stjórnarskrárbreytingu áður en þessu kjörtímabili lýkur, og vel að merkja með ágreiningi, þannig að tekist verði á um stjórnarskrárbreytingu í næstu kosningum. Það verði ekki kosið um verk núv. ríkisstjórnar, heldur verði kosið um breytingu á stjórnarskrá. Það er mín spá að talsmenn stjórnarflokkanna eða foringjar stjórnarflokkanna muni leggja fram breytingarfrv. á stjórnarskrá sem ekki verður samstaða um. Ef samstaða yrði um málið þá færi eins og seinast þegar stjórnarskrá var breytt, það var gert í sátt á milli flokka og stjórnarskrárbreytingin hvarf í kosningabaráttunni. Hins vegar var ekki sátt 1959. Þá voru átök um stjórnarskrána eða kjördæmabreytinguna sem yfirgnæfðu annað í þeirri kosningabaráttu þannig að menn voru ekki að kjósa yfir sig sérstaka ríkisstjórn. Menn voru að kjósa um hvort þeir vildu breyta kosningalögum eða ekki.
    Núverandi kosningalög voru sett í sæmilegu samkomulagi á milli allra stjórnmálaflokka hér á Alþingi. Sæmilegu, segi ég. Það var enginn ánægður, enginn hamingjusamur yfir þessari breytingu sem gerð var, en það voru allir á því máli að geta sætt sig við hana. Auðvitað eru núverandi kosningalög gölluð að vissu leyti. En þau eru samt ekki eins gölluð og menn vilja nú oft vera láta í tali sínu um þau. Það er vissulega mjög mikill galli á þeim hvað þau eru ógagnsæ og hvað þau eru flókin. Það er náttúrlega illt við það að búa að sú rúlletta sem fer í gang við atkvæðatalninguna sé ófyrirséð. Út úr því geta komið hin ólíklegustu úrslit. En það var verið að sætta tvö ósamrýmanleg markmið með þessum flóknu reiknireglum. Í

fyrsta lagi að viðhalda nokkru misvægi atkvæða og í öðru lagi að koma á fullum jöfnuði milli stjórnmálaflokka. Bæði markmiðin náðust, annað markmiðið næstum því nákvæmlega, þ.e. að ná fullum jöfnuði á milli flokka. Það markmið náðist. Og þar af leiðandi þrátt fyrir það að kjördæmaskipunin sé eins og hún er og þrátt fyrir það að vægi atkvæða sé að vissu leyti meira í einu kjördæmi en öðru, þá hefur það ekki áhrif á stjórn landsins. Þó að í síðustu kosningum hefði verið kosið í einu kjördæmi, þ.e. landið hefði verið orðið eitt kjördæmi fyrir síðustu kosningar, þá hefði núv. stjórnarmeirihluti verið nákvæmlega jafnstór. Núverandi ríkisstjórn sæti að völdum úr því að þeir Viðeyjarbræður ákváðu að gera kúppið. Núverandi ríkisstjórn sæti að völdum og með svipaðan þingstyrk á bak við sig þó að landið hefði verið eitt kjördæmi þannig að í hinu stóra atriði skiptir það ekki máli, þá ná menn lýðræðinu, þ.e. að hver stjórnmálaflokkur sé með fulltrúa miðað við atkvæðamagn.
    Menn hafa verið að fjargviðrast yfir því margir hverjir að dreifbýlið ætti hér allt of marga fulltrúa hlutfallslega á Alþingi. Það er að vísu hægt að finna töluleg rök fyrir því. En það sem máli skiptir og skiptir miklu meira máli heldur en það hvernig við í fótgönguliðinu skipum okkur, hvar við fótgönguliðarnir erum kosnir, er að 70% hæstv. ríkisstjórnar eru þingmenn Reykjavíkur og Reykjaness og það er út af fyrir sig það sem skiptir máli. Og það er ekki hægt að segja að Reykjavík og Reykjanes séu ,,undirrepresenteruð`` í ríkisstjórn Íslands.
    Ég vil undirstrika það sérstaklega, að dreifbýlið á ekki ráðherra í samræmi við þingstyrk og flokkarnir hafa á því vald sjálfir að velja þetta og hafa valið þingmenn Reykjavíkur og Reykjaness til að skipa ráðherrastólana.
    Það er talað um að fækka þingmönnum dreifbýlisins og það er ein leiðin til að jafna vægi atkvæða. Ég er nú á því að það sé fullt verk að vinna fyrir alla þingmenn dreifbýlisins og ég er sannfærður um að það er nóg fyrir alla dreifbýlisþingmenn að gera. Það er miklu auðveldara, það er miklu minna starf að vera þingmaður fyrir Reykjavík heldur en dreifbýliskjördæmi og það eru tveir hv. þm. sem hafa reynslu af hvoru tveggja, hv. þm. Steingrímur Hermannsson og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og ég hygg að þeir séu báðir sammála um það að það sé miklu auðveldara (Gripið fram í.) jú, og hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, ég er ansi hræddur um að þeir séu allir sammála um það að það sé auðveldara að vera þingmaður fyrir þetta svæði.
    Frú forseti. Nú mun tími minn vera búinn og ég mun að sjálfsögðu hverfa hér úr ræðustól en kveðja mér hljóðs jafnharðan aftur þannig að ég geti lokið því sem ég hef hér að segja.