Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 13:34:35 (774)


[13:34]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég vil vekja máls á því hér í þessum umræðum að á síðasta landsfundi Sjálfstfl. var fjallað ítarlega um þetta mál, breytingar á kosningalöggjöfinni, og ég vil, með leyfi frú forseta, lesa þá ályktun sem um það mál var gerð þannig að hún sé þingheimi kunn og þá geta menn áttað sig á því hver er afstaða Sjálfstfl. til þess máls sem hér er til umræðu. Þar segir:
    ,,Landsfundur Sjálfstfl. 1991 ályktar að alþingismönnum verði fækkað og kosningalöggjöf tryggi jafnræði kjósenda. Í starfsáætlun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar segir jafnframt að á vegum ríkisstjórnarinnar verði unnið að gerð nýrra kosningalaga þar sem leitast verði við að gera kosningalöggjöfina einfaldari auk þess sem stefnt sé að því að tryggja sem mestan jöfnuð í atkvæðisrétti landsmanna.
    Á vegum réttarfars- og stjórnskipunarnefndar Sjálfstfl. hefur verið unnið að tillögugerð um fækkun þingmanna og ný kosningalög. Hefur nefndin kynnt hugmyndir sem byggjast á grundvelli núverandi kjördæmaskipunar og gera ráð fyrir fækkun þingmanna. Hugmyndir þessar hafa verið sendar trúnaðarmönnum og miðstjórn Sjálfstfl. til kynningar og umræðna.
    Landsfundur Sjálfstfl. hvetur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar til að gera kosningalöggjöfina einfaldari og tryggja jöfnuð í atkvæðisrétti landsmanna. Ýmsar leiðir má fara að þessu markmiði. Áður er minnst á tillögu sem byggist í megindráttum á núverandi kjördæmaskipan. Þá hafa verið kynntar hugmyndir um að gera landið að einu kjördæmi og skipting landsins í einmenningskjördæmi er gamalt baráttumál Sjálfstfl.
    Landsfundurinn telur að Sjálfstfl. sé einum treystandi til að hafa forgöngu um víðtæka sátt um sanngjarna breytingu á kosningalöggjöfinni. Núverandi reglur eru ekki aðeins flóknar heldur geta þær leitt til óeðlilegrar niðurstöðu auk þess sem vægi atkvæða er mjög misjafnt milli kjördæma. Fækkun alþingismanna mundi m.a. auka skilvirkni í störfum Alþingis, auka á sparnað og frekara samræmis mundi gæta milli fjölda þeirra og fólksfjöldans í landinu. Í samræmi við fækkun þingmanna er eðlilegt að ráðuneytum og ráðherrum sé fækkað.
    Landsfundurinn álítur rétt að Sjálfstfl. gangi til viðræðna við aðra flokka um breytingar á kosningalöggjöfinni á þeim forsendum að fulltrúar flokksins séu óbundnir af einni leið frekar en annarri að því markmiði sem að er stefnt --- jöfnun atkvæðisréttar, að þingstyrkur flokka sé í samræmi við atkvæðamagn, fækkun þingmanna og að kjósendum verði tryggð sem mest áhrif á það hverjir veljist til þingsetu. Við meðferð málsins verði m.a. athugað hvaða hluta kosningalaganna ber að binda í stjórnarskrá.``
    Þetta er, frú forseti, ályktun sem gerð var á landsfundi Sjálfstfl. nú um síðustu helgi um þetta mál. Ég tel að sú tillaga sem hér liggur fyrir varðandi athugun á því hvort landið eigi að verða eitt kjördæmi sé of þröng. Hún taki ekki mið af öllum þeim atriðum sem þarf að kanna til þess að um þetta mál náist víðtæk sátt.
    Það hefur nú þegar komið fram í umræðunum að um málið er ágreiningur innan Framsfl. og þar eru menn mismunandi skoðunar varðandi þetta því að það er alveg augljóst af greinargerðinni með þeirri tillögu sem hér liggur fyrir, að það er vilji flm. að landið verði gert að einu kjördæmi og þeir telja að með því verði komið á þeirri skipan sem helst sé í samræmi við þau sjónarmið sem þeir hafa í þessu máli.
    Við höfum heyrt í máli hv. 1. þm. Norðurl. v., formanns þingflokks Framsfl., að hann er algerlega andvígur því að landið verði gert að einu kjördæmi þannig að það þarf ekki að saka núv. ríkisstjórn um það að efna til deilna í þjóðfélaginu um þessi mál því að þessi tillaga ein hefur greinilega valdið hér deilum innan Framsfl. og þannig kann það að verða ef menn ætla að binda sig áður en málið er kannað til hlítar við eina ákveðna leið í þessu máli. Það er því nauðsynlegt að um þetta náist víðtæk sátt og það er stefna okkar sjálfstæðismanna að vinna að því. Eins og fram kemur í stefnu og starfsskrá ríkisstjórnarinnar þá hefur hún það að markmiði að vinna að þessu máli nú á kjörtímabilinu og ég tel eðlilegt að á vegum ríkisstjórnarflokkanna verði að þessu máli unnið en einnig eins og fram kemur í ályktun okkar sjálfstæðismanna verði stefnt að viðræðum milli allra flokka.
    Varðandi þá hugmynd sérstaklega sem hér er gerð tillaga um, þ.e. að landið yrði eitt kjördæmi, þá verð ég að lýsa því að ég hef ýmsar efasemdir um réttmæti þess að sú leið verði farin án þess að menn hugsi til hlítar með hvaða skilyrðum það verði gert og hvert fyrirkomulagið verði. Þar er um margar mismunandi leiðir að ræða en fordæmi í þessu efni sækja menn einna helst nú á tímum til Hollands þar sem landið er eitt kjördæmi og mér skilst að t.d. Ísrael hafi sniðið sína löggjöf um þetta mál að hollenskri fyrirmynd. Í Hollandi er landið eitt kjördæmi, þ.e. atkvæði eru öll talin saman af landinu öllu. Hins vegar er landinu jafnframt skipt upp í 19 kosningasvæði ef svo mætti orða það til þess að auðvelda mönnum skipan manna á framboðslista, en það er einmitt það sem talið er eitt höfuðvandamálið við þessa skipan hvernig ákvarðanir skuli teknar um skipan manna á framboðslista og vafalaust eru ýmsar leiðir til í því sem

ástæða er til að kanna. En mér finnst að þessi tillaga, eins og hún er og það að gera tillögu um að aðeins verði athuguð ein leið í þessu á vegum þingflokka, ganga of skammt og ég get ekki verið því hlynntur að hún nái fram að ganga og að það verði þannig staðið að þessu máli að þingflokkarnir setjist niður við að athuga þetta mál eitt og sér. Það þarf raunar ekki nefnd á vegum þingflokka til þess að kanna þetta því að hver og einn getur náttúrlega aflað sér þeirra upplýsinga sem hann kýs um þetta fyrirkomulag. Það hefur verið framkvæmt eins og ég segi í Hollandi og það er til mikið af fræðilegum ritgerðum um það kerfi og menn geta vafalaust án þess að allir þingflokkar setjist í það mál aflað sér þeirra upplýsinga sem þeir kjósa og unnt væri að gefa út greinargerðir um það hér á íslensku varðandi það hvernig þetta hefur reynst t.d. í Hollandi. Mér finnst að þessi tillaga gangi of skammt. Hún er ekki í samræmi við það sem ályktað var á landsfundi Sjálfstfl. Ég tek hins vegar undir þau meginmarkmið sem þarna er getið, nauðsyn þess að jafna atkvæðisrétt milli kjósenda og einnig að stefnt skuli að því að sem mestur jöfnuður sé á milli flokka. Á hinn bóginn tel ég að í athugunum varðandi þetta mál, ef menn vilja ræða alla þætti þess, eigi einnig að líta á kosti þess og galla að gerbreyta því fyrirkomulagi að því leyti að menn leggja ekki jafnmikla áherslu á jafnræði milli flokka og nú er gert, heldur verði hugað að því að veita kjósendum sem mest áhrif á það hverjir sitja hér á Alþingi og hvernig ríkisstjórn sé mynduð að kosningum loknum.