Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 13:54:33 (788)


[13:54]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ekki illa til fundið að setja mál sem varðar kjördæmaskipan og kosningareglur hér á dagskrá. Því sannleikurinn er sá að þó leitað sé með logandi ljósi í gegnum allar kosningarannsóknir og skoðanakannanir þá finnur maður tæplega nokkurn einasta aðila sem hefur talið að þar væri um að ræða eitt af þessum stóru málum, þessum þýðingarmiklu málum sem þjóðin þyrfti að takast á við. Ég held nefnilega að þetta mál sé í eðli sínu þannig að þetta er fyrst og fremst áhugamál nokkurra atvinnustjórnmálamanna og áhugamanna um stjórnmál sem setjast á landsfundi og flokksfundi stjórnmálaflokkanna en hafi tiltölulega litla skírskotun úti í þjóðfélaginu. Þess vegna er út af fyrir sig ánægjuefni að það sé reynt að draga þetta mál hér á flot og víst skal ekki standa á mér að ræða það nokkuð.
    Ég tel að það hafi verið lögð óskiljanleg ofuráhersla á þýðingu kjördæmaskipaninnar. Ég er ósammála því að það ráði svo miklu um stjórn landsins eins og mér hefur fundist menn stundum láta í veðri vaka. Það er auðvitað margt annað og í flestum tilvikum allt annað sem ræður úrslitum um það hvernig

til tekst um stjórn landsins. Sannleikurinn er sá að undanfarna áratugi hefur ríkt í þjóðfélaginu nokkur sátt um tiltekið misvægi atkvæða. Það er alveg ljóst að um þessi mál hefur verið ákveðinn ágreiningur innan stjórnmálaflokkanna, ekki milli þeirra, heldur fyrst og fremst innan þeirra. En samt sem áður, þegar allt hefur komið til alls, þá hefur ríkt ákveðin sátt um tiltekið misvægi atkvæða í landinu.
    Það er heldur ekkert sérkennilegt vegna þess að þetta er ekkert séríslenskt fyrirbrigði að það sé nokkurt misvægi atkvæða á milli einstakra kjördæma. Þannig háttar til í mjög mörgum öðrum lýðræðisríkjum. Ég hef oft nefnt sérstaklega til sögunnar það land sem stundum er kallað vagga þingræðisins í heiminum, þ.e. Bretland, þar sem ríkir tiltekið misvægi atkvæða. Ég hef veitt því athygli upp á síðkastið að menn hafa verið mjög að vísa til misvægisins á milli Vestfjarða og Reykjavíkur. Þá er í hita leiksins þess gætt að taka með að það hittist svoleiðis á við síðustu kosningar að hinn svokallaði flakkari lenti á Vestfjörðum, sem auðvitað jók á þetta misvægi atkvæðanna. Eðlilegast væri auvitað þegar menn eru að tala um þetta að það væri miðað við þá þingmannatölu sem er almennt á Vestfjörðum, þ.e. þingmannatöluna fimm. Fyrir síðustu kosningar var misvægi atkvæða milli Vestfjarða og Reykjavíkur þrefalt sem er nokkurn veginn það sama og gildir í tilteknum kjördæmum í Bretlandi og þar sem mesti fjöldinn er á bak við einstaka þingmenn. Þannig að menn mega ekki tala sem svo að hér sé um að ræða eitthvað sérstakt fyrirbrigði hér á Íslandi og það út af fyrir sig kalli á einhverjar skjótar ákvarðanir.
    Ég er sammála því sem fram hefur komið bæði í máli hv. 3. þm. Reykv. og eins í máli hv. 9. þm. Reykv. að það er allt of þröngt sjónarhorn sem kemur fram í þessari tillögu til þingsályktunar. Þegar við ræðum um breytingar á kjördæmaskipan þá er auðvitað eðlilegast að hafa undir sem flestar tillögur. Ég er enginn sérstakur talsmaður núverandi kjördæmaskipunar. Ég held að það séu mjög margir áberandi og slæmir gallar á þessari skipan. Í fyrsta lagi er hér um að ræða mjög flókið kosningakerfi og erfitt fyrir allan almenning að skilja það. Ég held að það sé markmið í sjálfu sér að kjördæmaskipanin sé þannig að allur almenningur skilji út á hvað hún gangi og geti með sæmilegu öryggi áttað sig á því hvernig hún virkar.
    Það er líka stór galli við núverandi kjördæmaskipan að hún leiðir í mörgum tilvikum til tilviljanakenndrar niðurstöðu. Atkvæði greitt einum flokki í einu kjördæmi þarf ekki endilega að þýða stuðning við þingmann í því kjördæmi, heldur þingmann viðkomandi flokks í einhverju allt öðru kjördæmi. Menn tóku oft dæmi af kosningunum 1987 þar sem t.d. það að ef Alþfl. á Austurlandi hefði fengið sjö atkvæðum meira en hann fékk og Sjálfstfl. sjö atkvæðum minna þá hefði það komið af stað hringekju í sjö kjördæmum gagnvart fjórtán þingmönnum. Þannig mætti auðvitað tína til mörg önnur dæmi. Ástæðan er auðvitað sú sem hér hefur komið fram í ræðum manna að með núverandi kjördæmaskipan er verið að reyna að ná fram tveimur gjörsamlega ósamrýmanlegum markmiðum. Þannig að ég er út af fyrir sig alveg sammála því að það þurfi að endurskoða núverandi kjördæmaskipan. En ég er hins vegar ósammála því að það reki einhverjar sérstakar nauðir til þess vegna misvægis atkvæða eins og ég hef verið að reyna að koma orðum að hér.
    Það sem ber að gera og skoða í þessum efnum eru mjög margar hugmyndir. Það er í fyrsta lagi hugmyndin um einmenningskjördæmi sem er ríkjandi í Bretlandi og mörgum öðrum ríkjum, einkanlega þeim sem mótuð eru af hinni bresku stjórnskipunarhefð. ( KÁ: Kanada.) Sem er nákvæmlega rétt hjá hv. þm. Í öðru lagi er það auðvitað þannig að almennt meirihlutakjör er ríkjandi í langflestum lýðræðisríkjum heimsins. Í þriðja lagi get ég nefnt t.d. írska kosningakerfið sem var mjög uppi á borðum fyrir einum og hálfum áratug síðan. Gallinn við það er hins vegar sá sami og er á núverandi kosningafyrirkomulagi okkar að það er mjög flókið og alls ekki gagnsætt fyrir allan almenning. Í fjórða lagi gæti ég nefnt hér þýska kosningakerfið sem mér að mörgu leyti hugnast afar vel og tel að sé ástæða fyrir okkur til að fara alveg sérstaklega ofan í og skoða. Í fimmta lagi mætti nefna franska kerfið og í sjötta lagi er hugmynd réttarfar- og stjórnskipunarnefndar Sjálfstfl. sem hér var nefnd áðan.
    Þetta eru nokkrar hugmyndir sem eðlilegt er að skoða hverja fyrir sig. Engin þeirra er örugglega gallalaus. Allar hafa þær einhvern galla. Þannig er líka með þessa hugmynd sem hér er uppi á borðinu, hugmyndina um landið sem eitt kjördæmi. Í fyrsta lagi vek ég athygli á því að henni hefur ekki verið hrint í framkvæmd nema í tveimur ríkjum sem mér er kunnugt um, þ.e. í Hollandi og Ísrael. Það út af fyrir sig finnst mér vekja nokkra tortryggni að ekki skuli fleiri ríki hafa hrint þessari hugmynd í framkvæmd. Í annan stað, eins og menn hafa nefnt hér, leiðir þessi hugmynd til tiltekinnar miðstýringar og hugsanlegs flokksræðis. Í þriðja lagi vil ég nefna það sem er kannski verst af þessu og það er að í Hollandi hefur þetta m.a. leitt til þess að þar hefur orðið óeðlileg fjölgun flokka og framboða sem hefur gert kosningar í því landi ómarkvissar og kostina þar af leiðandi óskýrari sem augljóslega er slæmt í lýðræðisríki. Í fjórða lagi er hættan við þetta kosningafyrirkomulag sú að það rýfur ákveðin og nauðsynleg tengsl milli íbúa landsins, kjósendanna og þingmannanna. Þannig vil ég segja að það eru áberandi ókostir við þetta kerfi. Ég tel að það sé rangt að skoða þetta út frá mjög þröngum sjónarhóli og ítreka þess vegna þá skoðun mína að það beri að skoða þetta miklu víðar og er að því leytinu sammála hv. 9. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Reykv.