Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 14:09:10 (793)

[14:09]
     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :

    Virðulegur forseti. Það er nú út af fyrir sig mín skoðun að það sé ekki æskilegt að þessi umræða fari í þann flokkspólitíska farveg sem hv. 3. þm. Reykv. sveigði hana hér í mjög snemma. En það var út af fyrir sig ágætt hjá hv. síðasta ræðumanni að hann staðfesti það að landsfundur Sjálfstfl. og Morgunblaðið eru eitt.
    En það eru tvö efnisatriði sem ég ætla að nefna hér. Það er fyrst varðandi þá hugmynd um landið sem eitt kjördæmi, að það þýði miðstýringu. Þá vil ég ítreka það sem kom fram í minni framsögu að í mínum huga er þessi möguleiki ekki brúklegur nema í samhengi við valddreifingu, þ.e. hluti af því valdi sem nú er hjá Alþingi og ríkisstjórn verði fært heim til byggðanna. Það er í mínum huga grundvallaratriði við frekari útfærslu á þessari hugmynd.
    Að lokum, virðulegi forseti, þá vil ég nefna varðandi það sem hv. þm. sagði um misvægi atkvæða, það væri mjög víða að það væri misvægi atkvæða. Það er rétt, en ég hygg hins vegar að þær aðstæður sem við búum við og hvað þetta misvægi atkvæða getur þýtt í raun sé einstakt, þ.e. við búum við þá dreifingu íbúa á okkar landi sem er mjög erfitt að finna hliðstæðu við í öðrum löndum. Það gerir það að verkum að samanburður milli landa hvað þetta snertir er mjög lítið marktækur.