Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 14:56:26 (812)


[14:56]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil svara þessu með því að segja að ég sé ekki raunverulega heldur að mannréttindi fólks hér á þéttbýlissvæðunum hafi neitt minnkað við það að fá sína fulltrúa kosna fyrst inn og taka síðan þátt í að kjósa þingmenn í öðrum kjördæmum fyrir sinn flokk. Það er eiginlega hægt að líkja þessu nokkuð saman. Ég get alveg tekið undir það að mannréttindi hafa ekki minnkað hér hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík ( Gripið fram í: Sjálfstæðismönnum?) eða fólkinu hérna sem hefur kosið að kjósa Sjálfstfl. í það miklu magni að það eru reyndar sjálfstæðismenn sem ráða borginni og að þeirra réttindi hafi ekki minnkað. En mér finnst þetta svolítið sambærilegt. Ég held að menn verði að gera sér grein fyrir því að menn fá alltaf fulltrúa sína kosna hér í þéttbýlinu áður en þeir fara að taka þátt í því að kjósa um fulltrúa af öðrum landsvæðum. Og það er þess vegna sem ég tel að menn ættu að geta unað við þetta.
    Ég vil svo, vegna þess að ég hef örlítinn tíma í viðbót, segja það sem ég ætlaði reyndar að gera áðan, að ég vonast til þess að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir setji málið í þann farveg að allir fái að koma að því frá upphafi og það verði ekki gert með einhverju samráði milli stjórnarflokkanna sem síðan verði borið undir stjórnarandstöðuflokkana.