Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 15:01:10 (815)

[15:01]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vona að það hafi nú bara verið fljótfærni hjá hv. þm., ummæli hans um Kvennalistann þarna í lokin þar sem hann taldi að það væri forsenda fyrir því að Kvennalistinn gætu sinnt öllu landinu að hafa annaðhvort landslista eða fulltrúa í öllum kjördæmum. Vissulega væri það hið ákjósanlega, ég tek undir það með honum að við þyrftum að hafa sem breiðasta skírskotun, en ég vona að hann sé ekki að gefa það í skyn að kjörnir fulltrúar Alþb. í kjördæmunum séu einungis fulltrúar kjósenda í því kjördæmi sem þeir eru kjörnir í en ekki alls landsins, því þá held ég að alþýðubandalagsfólk um allt land verði að fara að hugsa sinn gang.