Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 15:04:35 (818)


[15:04]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég er alveg tilbúinn til þess að skoða það með öðrum. Ég hef ekki neinn einkarétt eða úrskurðarvald á því hvort menn geti komið þessu svona fyrir. En eins og menn vita þá hefur það víða gerst í bæjum og sveitarstjórnum allt í kringum landið að menn hafa farið að taka t.d. inn áheyrnarfulltrúa á bæjarráðsfundi og annað því um líkt. Menn sem sagt setja það ekki sem fullt skilyrði fyrir því að fulltrúar taki þátt í ákveðnum stjórnarathöfnum að þeir hafi þingstyrk til að komast þar að. Það kann vel að vera að menn geti fundið leið til þess að ná saman um einhvers konar svona samstarf. En ég færði þetta einfaldlega fram sem ein af rökunum fyrir því að það væri kannski leið í þessu að breyta landinu í eitt kjördæmi vegna þess að ég hef ekki komið auga á það og það hefur enginn komið með neina tillögu hér sem ég hef getað séð að leysi þetta vandamál að ef þið ætlið að fækka þingmönnum á landsbyggðinni, þá verða einfaldlega eyður. Það verða ekki þingmenn fyrir öll landsvæði og þá verður að gera þingmennina sem verða kosnir til þingsins ábyrga fyrir því að sinna öllu landinu. Það er mín niðurstaða.