Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 15:14:49 (820)


[15:14]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Þetta mál hefur nú verið sett hér á dagskrá inn á þingið, þ.e. spurningin um breytingar á kosningalögum og kjördæmaskipan, reyndar kannski ekki af þeim sem hafa verið upphafsmenn þessarar umræðu og sett þetta á dagskrá úti í samfélaginu, þ.e. stjórnarflokkunum, heldur af framsóknarmönnum hér á þingi. Ég fagna því út af fyrir sig að þessi umræða skuli vera komin upp. Ég vil þó segja það áður en ég vísa almennt afstöðu minni til þessarar tillögu eða þessarar umræðu, að mér finnst þessi sameiningarumræða vera öll angi af ákveðnu tískufyrirbæri. Við sjáum að það er hvarvetna verið að ræða um sameiningu fyrirtækja, sameiningu sveitarfélaga, sameiningu verkalýðsfélaga, sameiningu flokka, nánast sameiningu þjóðríkja og nú er verið að tala um að sameina kjördæmi. Þetta er einhver tískubylgja sem gengur yfir núna og er svolítill partur af þessum hugmyndum um patentlausnir á öllum hlutum og ég óttast svolítið að þetta almennt gangi í þá átt að auka einsleitni, draga úr fjölbreytileika og breiða svolítið yfir andstæða hagsmuni sem vissulega eru til staðar. Þess vegna vil ég að vissu leyti gjalda varhug við því, ekki síst þegar þetta fellur niður á það stig að þetta sé einhver patentlausn á þeim vanda sem við er að glíma.
    Það sem skiptir öllu máli þegar til sameiningar kemur, eða þegar sú umræða er sett á dagskrá, það er hverju á að ná með sameiningu, hvert er markmiðið með sameiningunni, hvert er inntakið með sameiningu? Mér skilst að inntakið almennt í þessari umræðu, a.m.k. eins og hún hefur endurspeglast á landsfundi Sjálfstfl. sé jöfnun atkvæðisréttar og helst þannig að það sé einn maður eitt atkvæði. Út af fyrir sig er þetta mjög eðlilegt grundvallarsjónarmið hjá einstaklingshyggjumönnum, að það sé einn maður eitt atkvæði, en maðurinn er nú ekki bara einn. Enginn er eyland, eins og þar stendur, heldur eru menn og einstaklingar hluti af hóp, þeir eru hluti af stétt, þeir eru hluti af kyni og þeir eru hluti af landsvæði. Og það sem við verðum líka að huga að í þessari umræðu allri saman er hvernig á að tryggja hagsmuni mismunandi þjóðfélagshópa? Hvernig á að tryggja það að raddir mismunandi þjóðfélagshópa heyrist t.d. héðan úr þingi. Það er auðvitað mjög góðra gjalda vert að skera upp herör gegn misvægi í atkvæðisrétti. En ég vildi sannarlega óska þess að þingmenn vildu skera upp herör gegn því stóra misrétti og því stóra misvægi sem er á milli karla og kvenna hér á þingi, að þeir vildu gera það af jafnmiklum myndarskap og þessi umræða fer fram sem hefur staðið yfir í allan dag og mjög margir hafa tekið þátt í. Því að mesta misvægið er auðvitað það misvægi sem er á milli karla og kvenna hér á þingi. Þetta vantar algerlega inn í þessa umræðu. Það hefur enginn minnst á það í þessari umræðu. Og ég sé ekki að hjá Sjálfstfl. hafi nokkurs staðar verið minnst á það hvernig Sjálfstfl. ætlar að beita sér gegn því misvægi sem er mesta misvægið.
    Ég vil reyndar bæta því við í þessu sambandi að þessi tillaga getur verið innlegg, ágætt innlegg í rauninni í þá umræðu, en það þarf bara að setja umræðuna þá þannig á dagskrá, vegna þess að það má segja það að því færri sem kjósa á, þeim mun minna rými er fyrir konur. Þar af leiðandi eiga konur mjög erfitt uppdráttar í þeim kjördæmum þar sem flokkarnir eiga almennt bara einn fulltrúa. Því lengri sem listarnir eru, því meiri líkur eru á því að konur komist þar ofarlega á lista og komist inn. Þess vegna má kannski segja það að ef hér væri bara eitt kjördæmi, landið væri eitt kjördæmi og hver flokkur væri með langan lista og það væri kannski ekki eins hörð barátta um efstu sætin, þá ættu konur meiri möguleika. Ég hygg að við getum líka tekið umræðuna um fjölda þingmanna út frá þessum sjónarhól, þ.e. hversu margir þingmenn eigi að vera, vegna þess að því færri þingmenn sem við veljum, því harðari er baráttan um þessi fáu sæti og þeim mun minni líkur eru á því að konur komist inn. Þessa reynslu höfum við hvarvetna í kringum okkur og þess vegna vil ég gjalda varhug líka við þeirri umræðu að fækka þingmönnum því að ég óttast að það muni gera konum róðurinn erfiðari en hann er.
    Það gæti auðvitað komið til greina að fækka kannski þingmönnum ef því yrði þannig fyrir komið að ráðherrar yrðu teknir utan þings en ekki innan eða ef ráðherrar þá segðu af sér þingmennsku og það kæmu inn varamenn í staðinn eða eitthvað slíkt. En ég held að vandi þingsins sé kannski ekki síst sá hvað þingið er í rauninni áhrifalítið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Hluti af þeim vanda á sér kannski rót í því að á þingi sitja tíu ráðherrar og á þingi sitja oft tíu fyrrverandi ráðherrar og svo eru kannski 10 sem eru með ráðherrann í maganum þannig að um það bil helmingurinn af löggjafarsamkundunni er svona ( Gripið fram í: Ráðherraígildi.) ráðherraígildi. ( MB: Það eru miklu fleiri . . .  ) Já, það kann að vera. Ég fór varlega í tölur um þetta. En ég held að þingmenn ættu að vera fullsæmdir af því að vera þingmenn og að við ættum að ganga erinda löggjafarsamkundunnar en vera ekki með annan fótinn inni í framkvæmdarvaldinu og þetta sé hlutur sem ætti alveg eins að skoðast.
    Ég hygg að Sjálfstfl. sé nú veikastur fyrir hugmyndinni um einmenningskjördæmi og þess vegna sagði ég hér áðan að á milli hugmyndarinnar um einmenningskjördæmi og landið eitt kjördæmi er himinn og haf vegna þess að ég held að hugmyndin um einmenningskjördæmi sé óhagstæðasta hugmyndin sem hugsast getur fyrir konur. Hvarvetna held ég að hún hafi í framkvæmd sýnt það að konur eiga mjög erfitt með að komast inn í slíkum kjördæmum. Og þess vegna er himinn og haf þarna á milli og Sjálfstfl. verður auðvitað að taka þessa umræðu upp frá öðrum sjónarhól heldur en bara þeim að jafna vægi atkvæða.
    Ég sé hér að í ályktun frá landsfundi Sjálfstfl. segir að landsfundurinn telji að Sjálfstfl. sé einum

treystandi til að hafa forgöngu um --- og svo segir --- ,,víðtæka sátt um sanngjarna breytingu á kosningalöggjöfinni``. Eitthvað kannast ég nú við þennan frasa, víðtæka sátt um sanngjörn kjör, hét þetta einhvern tíma. Nú er það víðtæk sátt um sanngjarna breytingu á kosningalöggjöfinni. Mér sýnist að í Sjálfstfl. sé víðtæk sátt um sanngirni á forsendu þeirra sem völdin hafa.