Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 15:26:04 (824)


[15:26]
     Matthías Bjarnason :
    Herra forseti. Það hefur ekki komið fram í þessari umræðu að allt frá stofnun lýðveldis hafa verið starfandi nefndir til endurskoðunar á stjórnarskránni. Það starf hefur gengið hægt en þó hefur þokast nokkuð áleiðis bæði hvað snertir hina tæknilegu hlið kosningalaganna og sömuleiðis þá breytingu sem var gerð fyrir nokkrum árum. Þar var sótt sú breyting til þeirra atriða sem rædd voru mjög ítarlega í þeirri nefnd. Hins vegar þó allir stjórnmálaflokkar, sérstaklega hinir gömlu flokkar, hafi átt fulltrúa í þessari nefnd frá fyrstu tíð þá hefur kjördæmaskipanin verið rædd í flokkunum og þar hafa komið fram margar hugmyndir. Það varð ofan á í stjórnarskrárnefndinni að kjördæmaskipun ætti að vera óbreytt, átta kjördæmi eins og verið hefur. Ég vil aðseins segja frá því sem ég var með í stjórnarskrárnefndinni fyrir allmörgum árum og ég hef ekki fallið frá að það gæti orðið til þess að menn næðu frekar saman. Við skulum ekki líta svo á að fækkun þingmanna hafi þau áhrif að einhverjir minnihlutahópar hverfi af þingi. Út af fyrir sig er það nauðsynlegt að við drögum saman seglin í þjóðfélagi sem er jafnþungt í vöfum og okkar hvað snertir allan kostnað við æðstu stjórn. Mín skoðun er sú að við eigum að fækka kjördæmakjörnum þingmönnum og halda okkur við óbreytta kjördæmaskipan en kjósa í landskjöri um það bil 40% þingmanna. Þá kemur fullt jafnræði á milli atkvæða hvar sem fólk er á landinu.
    Nú kunna menn úti á landi að segja: Þetta þýðir að það fækkar þingmönnum utan af landi. En ég hygg að enginn stjórnmálaflokkur leyfi sér að stilla upp á landslista eingöngu úr tveimur kjördæmum, Reykjavík og Reykjanesi. Það er líka sú breyting orðin að stjórnmálaflokkar fara að huga meira að því en áður að stilla ekki eingöngu öðru kyninu til framboðs. Ég hygg að það verði engin hætta á þessu. Ég held að breytingin síðasta sem gerð var þegar þingmönnum var fjölgað úr 60 í 63 hafi verið mjög til óhagræðis. Hún er flókin og illskiljanleg flestum mönnum. Ég man eftir því að þegar aðalhöfundur þessara breytinga var að skýra hana í þingflokki Sjálfstfl. þá sögðu menn: Hvernig verður með þennan flakkara? Kemur hann nú til þess að auka enn misræmið og hann komi frá fámennustu kjördæmunum? Ég man alltaf eftir því að viðkomandi maður sagði að það væru svo litlar líkur fyrir því að flakkarinn félli til fámennustu kjördæmanna að það mundi allt að því þurfa að líða 4.000 ár á milli svo að Jóna Valgerður hún á þá langt í að verða endurkjörin aftur að óbreyttri kjördæmaskipan. Þetta er nú sagt svona meira til gamans.
    Ég hef líka verið með þá hugsun að hafa atkvæðaseðilinn tvöfaldan. Annars vegar listakosningu eins og er og hins vegar að stilla á neðri helming kjördæmaseðilsins í stafrófsröð öllum frambjóðendum og útdráttur hvar skuli byrja. Þannig að sá sem vill ekki kjósa ákveðinn stjórnmálaflokk eða stjórnmálasamtök geti þá valið um að kjósa persónulega jafnmarga menn og kjósa á í hverju kjördæmi. Þetta kemur einnig til greina finnst mér. Mér finnst einnig koma til greina að sú breyting verði gerð að hver kjósandi hafi heimild til þess, auðvitað með ákveðnum fyrirvara fyrir hverjar kosningar, að segja sjálfur til um það í hvaða kjördæmi hann vill nýta sinn atkvæðisrétt. Þetta getur líka orðið til þess að breyta misræminu. Misræmið á milli flokka var mikið eins og allir vita. Því misræmi var eytt á nokkuð löngum tíma en misræmið á milli kjördæma það hefur breikkað verulega. En svo komum við aftur að því stóra atriði að ef verður farið eitthvað í þessa átt þá stöndum við frammi fyrir því að það verður áfram misræmi á milli þegnanna í þjóðfélaginu. Það er ekki alls staðar það sama sem þegnarnir mega búa við. Þá kostar það að gera í kjölfarið aðrar stærri og meiri breytingar. Ég tel sjálfsagt að setja á og inn í annaðhvort stjórnarskrá eða lög að það þurfi tiltekinn ákveðinn meiri hluta umfram 50%, að ráðherrum sé fækkað og það sé tekið í lög hver heildarfjöldi ráðherra megi vera. Það er ekki skylda að fara í það. Ég tel mjög vel koma til greina að þegar maður verður ráðherra þá afsali hann sér sæti á meðan og varamaður komi inn á þing.
    Ég tel að við höfum rætt í þessari stjórnarskrárnefnd hér fyrr á árum og það ítarlega einmenningskjördæmafyrirkomulagið sem mér persónulega féll vel við á margan hátt. En ég fann það strax að það var enginn grundvöllur fyrir því. Breyting á kjördæmaskipaninni og því sem henni fylgir getur ekki gengið fram nema með allvíðtækri samvinnu og samstarfi. Og það verður fyrst og fremst að eiga sér stað innan hvers flokks. Þannig að fulltrúarnir sem fjalla um þetta eiga að hafa og fá umboð til þess hvað þeir mega ganga langt í þessum efnum til þess að ná sem breiðastri samstöðu. Það er margt fleira sem þarf að breyta. Það þarf að breyta meðmælendatölu við framboð. Ég sá í síðustu kosningum að einn lista vantaði 19 atkvæði upp á lágmarksmeðmælendatölu ef ég man rétt. Þannig má lengi halda áfram. Ég hefði kosið að mega eiga kost á að ræða þetta mál frá málefnalegu sjónarmiði miklu ítarlegar en mér gefst kostur á við þennan þrönga tíma sem hér er til umræðu.