Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 15:34:47 (825)


[15:34]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hefði viljað beina einni spurningu til hv. 1. þm. Vestf., sem er formaður stjórnarskrárnefndar, og inna hann eftir því hvaða horfur hann telur vera á því að nefndin geti skilað áliti. Þetta mál var nokkuð rætt hér í tengslum við þáltill. um afmæli íslenska lýðveldisins á næsta ári. Þá var að sjálfsögðu fátt um svör frá hæstv. ríkisstjórn í þessu efni en ég er þess fullviss að hv. 1. þm. Vestf. hefur fjallað um þessi mál eða að minnsta kosti hugleitt þau hvort það er hugsanlegt að það fáist botn í stjórnarskrármálið núna á næstu missirum. Ég held að það væri mjög æskilegt. Þá er ég að tala um stjórnarskrármálið fyrir utan kjördæmamálið út af fyrir sig og vildi þess vegna inna hv. þm. eftir því hvort þess er að vænta að niðurstöður fáist í stjórnarskrármálinu núna alveg á næstu missirum. Ég vil fyrir mitt leyti hvetja til þess.
    Í öðru lagi vil ég vekja athygli á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í þessu kjördæmamáli, sem er þessi: Síðast þegar við breyttum kjördæmaskipuninni þá náðu menn samstöðu um kerfi sem tryggði jöfnun á milli flokka, skoðana og pólitískra sjónarmiða í landinu. Þá var einnig ákveðið að fjölga nokkuð þingmönnum þéttbýlisins. Niðurstaðan varð sú að þingmenn Reykv. og Reykn. geta núna orðið 30 ef flakkarinn lendir í öðru hvoru þessara kjördæma. Það þýðir það að dreifbýlið hefur að jafnaði 33 eða 34 þingmenn, gætu orðið 31 reyndar, það er hugsanlegt. Ef menn ætla sér að breyta þessu þá eru menn að taka ákvörðun um að R-kjördæmin tvö geti haft meiri hluta á Alþingi. Um það snýst málið. Út af fyrir sig situr ekki á mér sem þingmanni Reykvíkinga að ræða alla hluti en ég bendi á að það er þessi þröskuldur sem menn vísvitandi neituðu að fara yfir síðast.