Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 15:37:05 (826)


[15:37]
     Matthías Bjarnason (andsvar) :
    Herra forseti. Mér er ljúft að verða við þeirri beiðni að ég tel að það séu tiltölulega fá atriði sem eftir eru miðað við allt það sem búið er og þær breytingar sem hafa verið gerðar. Þau atriði sem ekki eru enn fyllilega útrædd eru eignarréttarákvæðin og um það er verulegur ágreiningur á milli Alþfl. og Alþb. annars vegar og Sjálfstfl. og Framsfl. hins vegar. Ég hygg að það ætti að vera hægt að ná samkomulagi um eignarréttarákvæðin. Þá er kaflinn um mannréttindaákvæðin ekki afgreiddur en að honum er unnið. Það er mjög erfitt og seinlegt að fá vinnu frá hæfustu mönnum í þessum efnum og hefur tekið miklu lengri tíma en maður hugsaði sér í upphafi. Þá er þriðja atriðið hlutverk sveitarfélaganna. Á því er nokkur hængur núna vegna þeirra róttæku breytinga sem ætla má að standi yfir. En í núverandi stjórnarskrá er örlítið minnst á hlutverk sveitarfélaganna og langt frá því að vera nægilega fullkomið. Þá hefur komið til í nokkur önnur veigaminni atriði en þó veigamikil, t.d. valdsvið forseta sem hafa orðið nokkur blaðaskrif um á undanförnum árum.
    Stóra málið er auðvitað kjördæmamálið en tæknihlið kosningalaganna er afgreidd og löngu orðin að lögum og töluvert af þeim atriðum sem stjórnarskrárnefndin fjallaði um voru tekin upp í frv. sem formenn þingflokkanna, ef ég man rétt, voru flm. að.
    Út af því hvenær þessu gæti lokið ætti það að takast fyrir vorið.