Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 15:39:50 (827)


[15:39]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Vestf. og formanni stjórnarskrárnefndar fyrir svörin. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að það liggi fyrir sem hans skoðun að það ætti að vera unnt að ljúka þessu máli fyrir vorið. Það er í nefndinni geri ég þá ráð fyrir. ( MB: Já.) Ég hef skilið málið svo að í raun og veru stæði þetta fyrst og fremst upp á flokkana. Málið væri hjá þeim að gera upp ágreiningsefnin. Mér er auðvitað ljóst að miðað við þau ágreiningsefni t.d. um eignarréttinn sem þarna eru inni þá er það kannski eilítið flókið að taka á þeim með hliðsjón af núverandi stjórnarsamstarfi og núverandi skipan stjórnarandstöðunnar eins og gengur, en engu að síður þá held ég að það ætti að gera þetta. Mér er kunnugt um það að forsætisnefnd Alþingis hefur tekið um það ákvörðun að það verði haldinn fundur á Þingvöllum í tengslum við 50 ára afmæli lýðveldisins 17. júní 1994. Mér er að sjálfsögðu ljóst að það er engu hægt að ljúka fyrir þann tíma. En ég teldi það engu að síður mikilvægt ef á þeim fundi á Þingvöllum væri með einhverjum hætti hægt að slá því föstu að stigið verði spor sem menn hefðu þá ákveðið varðandi endurskoðun á stjórnarskránni. Þess vegna tel ég að sú yfirlýsing sem fram kom hér frá hv. 1. þm. Vestf. sé þýðingarmikil og í henni felist tíðindi sem við hljótum að taka eftir og vinna að hér á komandi vikum og mánuðum. Það eru þingflokkarnir sem þurfa auðvitað að taka á málinu og ræða það núna á næstu vikum og mánuðum.