Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 16:08:21 (836)


[16:08]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni alveg afleit tillaga að mínu mati. Burt séð frá því hvort rétt sé að gera landið að einu kjördæmi eða ekki þá finnst mér sú uppstilling að leggja til að Alþingi kjósi sérstaka nefnd til þess að kanna einn valkost í því að breyta kjördæmaskipuninni vera alveg afleitur kostur og að mínu mati til þess eins fallinn að tefja málið með því að eyða tíma í kost sem væntanlega síðan

verði hafnað. Og mér finnst einhvern veginn að tillagan sé einungis flutt til þess að reyna að afmá þann smánarblett sem er á nafni Framsfl. sem er hvernig þeir hafa beitt þingfylgi sínu til þess í gegnum árin að varna því að kjördæmaskipulaginu væri breytt og það kæmist á atkvæðajafnvægi alls staðar á landinu.
    Ég tel að landið sem eitt kjördæmi mundi leiða til flokksræðis í landinu sem við búum ekki við í dag. Ég held að þrátt fyrir að það séu ýmsir gallar á okkar flokkum og okkar flokkakerfi þá sé tiltölulega mikil valddreifing innan flokkanna og það sé merki um það að hér hjá okkur sé virkt lýðræði þar sem íbúarnir hafi tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri og hafa áhrif á það hvernig við veljum fulltrúa á Alþingi á öðrum vettvangi heldur en einungis þegar við kjósum í kjörklefanum. Ég held að við eigum skilyrðislaust að stefna að því að ná jafnvægi í vægi atkvæða en við eigum að reyna að gera það innan þeirrar kjördæmaskipunar sem við búum við í dag. Ég held að það sé nauðsynlegt að við höfum kjördæmi. Ég held að þingmenn tiltekinna kjördæma hafi hlutverki að gegna en það verði að vera jafnvægi á milli allra kjördæmanna. Það er kannski ofurbjartsýni að þetta náist í einni tilraun. Það er búið að reyna það svo oft og einhvern veginn höfum við alltaf runnið aftur á bak, að vægi atkvæðanna hefur alltaf runnið í sama horfið að suðvesturhornið hefur haft margfalt minna vægi heldur en landsbyggðarkjördæmin hafa haft. En ég held að við verðum að setja okkur háleit markmið jafnvel þó að það sé erfitt að ná þeim og við verðum að halda áfram að reyna að ná þeim þótt til þurfi blóð, svita og tár til að ná þeim árangri. Við megum ekki gefast upp og falla í gryfju einhverra sýndartillagna um gervilausnir á raunverulegu vandamáli okkar.