Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 16:14:29 (840)


[16:14]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ef hv. þm. Jóhannes Geir telur sig ekki þurfa að svara rökum mínum hér í umræðunni þá veit ég ekki til hvers hann er að fara hér upp í pontu hvað eftir annað. Auðvitað veit ég vel að hann var ekki á þingi 1934. En hver er það sem alla tíð hefur spornað við fótum í kjördæmabreytingunni? Það er Framsfl. Og síðan koma þingmenn hans með þessa tillögu, tillögu sem ég get á engan hátt litið á sem lausn á þeim vanda sem við erum að reyna að leysa. Og þeir leggja bara til þann kost að hann verði skoðaður og engan annan. Ég get ekki túlkað það öðruvísi heldur en það sé bara verið að þæfa málið og reyna að koma í veg fyrir frekari breytingar á kjördæmaskipaninni. Ég get ekki túlkað það öðruvísi. En vonandi er Framsfl. að breytast. Ég get ekki annað en leyft mér að vona það. Að vísu voru umræður fyrr í dag um lífeyrismálin og um þetta mál hér fyrr í umræðunni en ræður formanns þingflokksins báru ekki mikið vitni um það að flokkurinn væri að breytast. Að vísu hafnaði hv. þm. Finnur Ingólfsson, sem er flm. að báðum þessum tillögum, félagshyggjunni hér í ræðupúlti í dag, sagði að hún hefði brugðist og það út af fyrir sig eru tíðindi og kannski er það rétt hjá hv. þm. Jóhannesi Geir að Framsfl. sé að breytast. Ég vona að svo sé.