Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 16:38:53 (851)

[16:38]
     Pálmi Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel nú ekki að það séu rök gegn einmenningskjördæmum að karlmenn séu betur launaðir og ríkari en konur því ef hæfileikamaður hvort sem um er að ræða karl eða konu býður sig fram í einmenningskjördæmi þá dregur sá einstaklingur að sér fylgið út fyrir flokka í mörgum tilvikum.
    Ég get auðvitað sagt að kostir kerfisins eru fyrst og fremst jákvæð áhrif á stjórn landsins og á styrk þeirra einstaklinga sem sitja á Alþingi. Það er nokkuð veigamikið atriði þegar við fjöllum um þessi mál. Hvort einhver fer þannig orðum um þetta kerfi að það sé ekki nægilega réttlátt, það geri ég minna með heldur en hina kostina sem vega þyngst í mínum huga.