Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 16:40:49 (853)


[16:40]
     Pálmi Jónsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. fer fram hjá því að ég minntist ekkert á flokka. Ég ætlast til að við getum hér í þessum sal rætt kosningaskipulag án þess að vera alltaf með flokkana fyrir augum. Mér er það alveg ljóst að einmenningskjördæmafyrirkomulag mundi væntanlega riðla því flokkakerfi sem er í dag. Og það mundu myndast fylkingar sem mundu síðan vegast á um það eða skiptast á um að fara með völdin. Slík er reynslan þar sem slíkt kerfi er við lýði. Það er öðru nær en ég telji að það sé einhver trygging fyrir því að Sjálfstfl. mundi ná meiri hluta við þetta kerfi. Væntanlega mundi hann vera ásamt kannski einhverjum öðum sem í fylkingu væri með honum það afl í stjórnmálum sem mundi hafa meiri hluta annað veifið og fara þá með stjórn landsins og bera fulla ábyrgð á stjórn landsins. En síðan mundi væntanlega einhver önnur fylking fara með stjórn landsins annað veifið og bera á því fulla ábyrgð. Væntanlega og vonandi mundu konur koma að stjórnmálum og stjórn landsins í slíku kerfi ekkert síður en því kerfi sem við búum við.