Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 16:50:03 (855)


[16:50]
     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þegar menn ráðast í það að saka menn um sýndarmennsku og ómerkilegheit eins og hv. síðasti þingmaður hefur gert, reyndar bæði í ræðu út af þessu máli og einnig í viðtölum í dagblöðum, þá er það svona lágmarkskrafa að viðkomandi menn fylgist með umræðunni. Ef hv. þm. hefði fylgst með umræðunni í dag og hlustað á minn málflutning bæði í framsögu og einnig í andsvörum í tvígang, þá hefði hann væntanlega heyrt mig segja það að forsendan fyrir þessari breytingu væri flutningur á valdi og verkefnum út til byggðanna. Það stendur reyndar líka í tillögunni. En það er einu sinni þannig að sumir hv. þm. eru svo uppteknir af sjálfum sér að þeir virðast ekki geta gefið sér tíma, hvorki til að hlusta á umræður né lesa málskjöl. Ég hef einnig verið að fylgjast með málflutningi hv. þm. gagnvart þeim veikburða tilburðum sem nú eru uppi um að flytja verkefni út á landsbyggðina. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það gerist ekki mikið í því núna þann 20. nóv. en ég held hins vegar að sá vísir að þeirri umræðu eigi eftir að vaxa og dafna og bera vonandi ávöxt. Ég verð að segja alveg eins og er af því að hv. þm. kaus að færa umræðuna inn á þennan vettvang þó ég hafi lagt mig eftir að hlusta eftir málflutningi þingmannsins þá átta ég mig engan veginn á viðhorfum hans eða skoðunum varðandi þetta grundvallaratriði að það eigi að færa verkefni, fjármagn og vald út til byggðanna.