Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 17:29:25 (863)


[17:29]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Herra forseti. Mér finnst að þessar umræður hafi leitt í ljós að tillöguflutningurinn þjónar ekki þeim tilgangi sem hv. síðasti ræðumaður vildi. Það hefur komið hér fram í þessum umræðum að það er meiri andstaða við þetta mál heldur en menn kannski ætluðu áður en umræðan hófst og málið er komið í sjálfheldu og mun ekki leiða til þeirrar niðurstöðu að leysa nokkurn vanda.
    Varðandi það sem flm. sagði um ályktun okkar sjálfstæðismanna þá verður hann að átta sig á því að hún er tvískipt. Það er annars vegar verið að lýsa stefnu ríkisstjórnarinnar og hvernig má ná markmiðum þeim sem þar eru sett fram. Það er hægt að gera það eftir ýmsum leiðum, einmenningskjördæmum eða gera landið að einu kjördæmi og byggja á þeim grunni sem nú er fyrir hendi.
    Á hinn bóginn lýsir Sjálfstfl. því yfir að hann telur að það eigi að taka upp viðræður allra flokka um þetta mál og þar eigi að huga að þessum atriðum eins og jafnræði á milli flokka, jöfnun atkvæðisréttar og öllum þeim þáttum sem menn hafa verið að ræða hér í dag þannig að menn verða að líta á þetta í því ljósi sem segir beinlínis í textanum og það er algerlega ástæðulaust að vera að draga það í efa að Sjálfstfl. hafi ekki fastmótaða og skýra stefnu í þessu máli.