Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 17:35:19 (869)


[17:35]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með því að hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson heldur hverja ræðuna á fætur annarri og beinir máli sínu einkum til hv. þm. Framsfl. Hann vill leiða þá á braut betri þroska. Ég get þá sagt honum af eigin reynslu að þar mun hann sennilega ekki hafa erindi sem erfiði.
    En ég vil segja það, virðulegi forseti, að í ræðu sinni hér áðan drap hv. þm. á ýmsa kosti sem koma til greina. Nú er það svo að við þurfum með einhverjum hætti að reyna að finna sameiginlega lendingu í þessu máli. Ein gæti t.d. verið sú að taka upp þýska kerfið þar sem þingmenn eru kjörnir bæði úr kjördæmum og líka af landslistum. Í ræðu sinni reifaði þingmaðurinn lítillega þennan möguleika og sagði sem svo: Þetta mun leiða til þess að þingmenn stærri flokkanna munu verða kjördæmakjörnir og smærri flokkarnir munu fá einn og einn þingmann í kjördæmi og þess vegna fá líka þingmenn af landslistum. En hvað er að því? Þetta voru í rauninni rök af hans hálfu gegn þessu fyrirkomulagi og mér þætti vænt um að fá að heyra frekar úr hans munni hvers vegna hann telur að þetta fyrirkomulag verðskuldi ekki umræðu og hvaða galla hann sér á því.