Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 17:50:03 (879)

[17:50]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hefur tekið upp þá venju hinna útdauðu kommúnista að skamma Albaníu en meina Kína. Hér heldur hann flenniræðu gegn frjálshyggjunni. Hvers vegna skyldi hann velja þennan dag? Einmitt vegna þess að á þessum degi hefur það gerst að hv. þm. Páll Pétursson, formaður þingflokks framsóknarmanna, hefur tekið hina ungu framsóknarþingmenn tvisvar og vænt þá um frjálshyggju og það er auðvitað út af því sem þingmaðurinn heldur þessa miklu stólparæðu gegn frjálshyggjunni. Í þeim hópi er hinn ungi þingmaður, hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson. Hann er einn af þeim nýju frjálshyggjusveinum Framsfl. og ekki nema von að þingmaðurinn þurfi að skamma þá talsvert hér.
    En þingmaðurinn talaði um galla núv. fyrirkomulags og sagði að m.a. leiddi það til þess að héraðsvitund manna væri deydd. Ég get tekið undir þetta. Það er óheppilegt að skipta Norðurlandi í tvennt og skipta landinu í marga hluta eins og þingmaðurinn sagði. En skilur hann ekki hvað hann er að segja. Hann er að taka undir með þeim sem vilja gera landið að einu kjördæmi og þar með eyða þessari skiptingu. Hvers vegna kemur ekki þingmaðurinn og gerir upp við þetta mál og viðurkennir það að hann hefur haft rangt fyrir sér. Hann hafi eins og Sál á leiðinni til Damaskus séð ljósið þó vera kunni að hann hafi ekki fengið eldingu í hausinn eins og Sál á sínum tíma.