Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 17:56:10 (884)


[17:56]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil taka undir það með hæstv. umhvrh. að eftir þær umræður sem urðu hér fyrr í dag varðandi frv. til laga um eftirlaunasjóði, þá finnst mér það koma úr hörðustu átt frá hv. 2. þm. Vestf. að bera það fram sem sérstakt ásökunarefni að menn aðhyllist frjálshyggju því að það kom glögglega fram í þeim umræðum að hv. 1. þm. Norðurl. v., formaður þingflokks Framsfl., taldi að þessi skoðun væri að ryðja sér mjög til rúms innan þingflokks framsóknarmanna. Og það fer framsóknarmönnum ákaflega illa að setja á þessar deilur hér og nota okkur þingmenn úr öðrum flokkum sem skotspæni í þeim ágreiningsmálum. Þeir verða að leysa þessi mál á eigin vettvangi og ég er viss um það að dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson mun fúslega veita þeim leiðbeiningar í þessum fræðum þannig að þeir geti sætt sín sjónarmið og áttað sig á því um hvað þessi mál snúast, enda er hann náskyldur eins og fram hefur komið formanni þingflokksins þannig að þar eru stuttar leiðir á milli ef menn vilja hafa uppi samræður. Ég gæti sjálfur tekið að mér að koma þessum boðum til Hannesar Hólmsteins ef óskað væri.
    Varðandi málið sem er hér til umræðu, kosningalöggjöfina, þá vildi ég spyrja hv. þm. hvort það sé rétt að skilja orð hans þannig að hann aðhyllist einna helst hugmyndir um meirihlutakjör, þ.e. að kosningalöggjöfinni verði hagað þannig að kjósendur geti sagt sem mest um það hvaða ríkisstjórn taki við að kosningum loknum.