Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 17:57:55 (885)

           
[17:57]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég verð að játa að mér finnst umburðarlyndi forseta mikið þegar hér er tekið á dagskrá lífeyrissjóðsmál undir þessari umræðu. Ég vil undirstrika það að ég hygg að frjálshyggjumönnum fækki hratt í flestum flokkum, fækki hratt. En hitt er svo annað mál að sú spurning efnislega um þetta mál sem kom hér fram er allrar athygli verð. Ég tel að þá aðeins sé lýðræði eins og ég vil hafa það og skil það ef fólkið sem gengur að kjörborðinu hefur verulega vissu fyrir því hvaða ríkisstjórn það er verið að setja yfir landið með sínu atkvæði. Það finnst mér vera kjarni málsins að fólkið hafi áhrif á það við kosningarnar hvaða ríkisstjórn það er að setja yfir landið. Það er erfitt að búa við það að menn bjóði sig fram undir merkjum félagshyggju og jafnaðarmennsku, en gangi svo beint til þess leiks að setja frjálshyggjuna í öndvegi jafnvel þótt ég taki undir það að í dag hafa þeir verið að færa með lagni úr þinginu helstu frjálshyggjupostulana úr sínum röðum. Og nú nikkar hæstv. umhvrh. Hann gerir sér grein fyrir því hvað þeir hafa verið að gera.