Húsnæðismál Stjórnarráðs Íslands

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 15:20:05 (894)


[15:18]
     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Af þeim mátti heyra að það er allt óljóst um þessi áform. Ég skil þetta svo að menn hafi augun opin gagnvart húsum og lóðum í nágrenni Arnarhváls en að það liggi ekki neinar áætlanir fyrir um hvernig starfsemi Stjórnarráðsins skuli skipað á næstu árum.
    Það er kannski ekki sanngjarnt að spyrja hæstv. forsrh. í framhaldi af þessu hversu hagkvæm sú nýting og sú leiga er sem ráðuneytin búa við. En ég held að það hljóti að vera ljóst að skoða þarf skipan þessara mála nánar og það hljóti nú að vera frekar óhagkvæmt að ráðuneytin séu mjög dreifð þó að það sé yfirleitt ekki háttur hjá öðrum þjóðum að öll ráðuneyti séu í sömu byggingum, þeim er gjarnan dreift og ekkert við það að athuga. En ég skil þessi svör þannig að menn hafa fyrirvara á en engar áætlanir liggi fyrir.