Afmæli heimastjórnar og fullveldis Íslands

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 15:25:05 (897)


[15:25]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Það er skemmst frá því að segja að af hálfu ríkisins hefur ekki farið fram neinn undirbúningur til þess að minnast sérstaklega þessara merku atburða sem hv. þm. nefndi. Báðir þessir atburðir sem þingmaðurinn nefndi eru mjög þýðingarmiklir í sögu þjóðarinnar og jafnvel má færa rök fyrir því að þeir séu hvor um sig þýðingarmeiri að efni til heldur en lýðveldisstofnunin sjálf sem þó er að vísu endapunktur í sjálfstæðisbaráttu þjóðar.
    Það hefur reyndar verið þannig að við Íslendingar höfum aldrei lagt þá rækt við fullveldisdaginn, 1. des., sem mikilvægi hans gæfi kannski tilefni til. Sumir hafa sagt að aðstæðurnar á þeim tíma hafi gert það að verkum að svo margir hafi svo lengi átt um sárt að binda að þess vegna hafi menn ekki fagnað þeim tímamótum. Á þessu merka ári var reyndar heimsstyrjöld að ljúka, frostaveturinn mikli, Kötlugosið og síðast en ekki síst spánska veikin sem var okkur Íslendingum mjög erfið. Sumir hafa gefið þá skýringu, ég er að vísu ekki sagnfræðingur, að þetta sé ein af ástæðum þess að menn hafa ekki haft fögnuð uppi varðandi þessi tímamót sem svo mjög eru merkileg. Þó hefur háskólinn, stúdentar við háskólann og stúdentafélögin sérstaklega, bæði hér heima og reyndar erlendis líka og Íslendingafélögin, haldið minningu þessa dags í heiðri.
    Ég hygg að það hafi yfirleitt ekki verið sérstök hátíðarhöld í tilefni af 1. febr. 1904 þótt merkur atburður sé, en ég teldi vel til fundið á þessum tímamótum að stíga skref í það að láta skrifa framhaldssögu Stjórnarráðsins sem var töluvert þrekvirki þegar hún var skráð. Ég held það færi vel á því að það yrði gert og tel rétt að láta athuga það alveg sérstaklega.

    Reykjavíkurborg hefur allmikla dagskrá vegna 50 ára afmælis lýðveldisins. Í drögum að þeirri dagskrá kemur fram að 1. febr. verður opnuð ljósmyndasýning í Ráðhúsi, Árið 1904 --- 90 ár frá heimastjórn, kvöldvaka sem hæfir deginum og gert er ráð fyrir að sýningartími standi frá 1. febr. til 1. mars. Þannig að á þeirra vegum verða hátíðahöld af þessu tilefni sem er út af fyrir sig jákvætt, en það má segja auðvitað að þessi dagur er dagur þjóðarinnar allrar þó að það hafi verið opnað stjórnarráð í Reykjavík þá er það auðvitað stjórnarráð landsins alls og haldin var mikil hátíð eins og menn muna í Iðnó á þessum tíma og fluttar frægar ræður. Reyndar er það svo að það er einmitt verið að endurvinna og endurgera Iðnó en ég hygg að það verði ekki tilbúið á þessum tíma.