Afmæli heimastjórnar og fullveldis Íslands

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 15:28:05 (898)


[15:28]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég vil taka undir með fyrirspyrjanda að það sé nauðsynlegt að minnast þessara tímamóta. Ég vil einnig hvetja hæstv. ríkisstjórn eindregið til þess að það verði gengið til þess verks að skrifa framhald sögu Stjórnarráðs Íslands. Það var hafist handa við að skrifa þá sögu í tilefni af 60 ára afmæli heimastjórnarinnar 1964 og nú eru 30 ár liðin frá þeim tíma og ég held að það sé mjög tímabært að það sé tekið upp að nýju. Ég veit að það er áhugi hjá Sögufélaginu sem var útgefandi að þessu verki að vinna að því og ég skora eindregið á ríkisstjórnina að taka þetta mál upp í tilefni af þessum tímamótum 1. febr. 1994.