Framlög til vísindarannsókna

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 15:33:05 (901)


[15:33]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Svar mitt til hv. fyrirspyrjanda er þetta:
    Eins og Alþingi er kunnugt hefur sala ríkiseigna á þessu ári aðeins skilað ríkissjóði litlum hluta þeirra tekna sem að var stefnt. Í ljósi þessarar niðurstöðu hef ég haft frumkvæði um að frekari fjárframlögum verði varið til rannsókna og þróunarstarfs á vegum Rannsóknasjóðs Rannsóknaráðs ríkisins og nýstofnaðs Rannsóknanámssjóðs sem mun styrkja rannsóknatengt framhaldsnám á vegum Háskóla Íslands. Þannig hefur ríkisstjórnin samþykkt að í fjáraukalögum verði leitað heimilda Alþingis um að auka ráðstöfunarfé Rannsóknasjóðs um 45 millj. kr., þ.e. úr 115 millj. kr. á árinu 1992 í 160 millj. á þessu ári.
    Í grg. með frv. til fjárlaga fyrir árið 1994 er síðan gert ráð fyrir að framlög til Rannsóknasjóðs hækki í 200 millj. kr. Einnig hefur ríkisstjórnin samþykkt að ráðstafa á þessu ári 8 millj. kr. til áðurnefnds Rannsóknanámssjóðs. Jafnframt hef ég miðað við og mun beita mér fyrir að á næsta ári verða 25 millj. kr. veittar til Rannsóknanámssjóðsins.
    Þannig hafa markmið um sölu ríkiseigna orðið hvatning til þess að verja meira fé til rannsókna og þróunarverkefna en áður var raunin og er stefnt að því að fjárframlög til rannsóknasjóða aukist verulega á næsta ári eða u.þ.b. um eða yfir 100 millj. kr. miðað við fjárlög 1993.
    Þá er einnig spurt um hvaða verkefni hafi verið styrkt með tekjum af sölu ríkiseigna. Þar sem tekjur af sölu ríkisfyrirtækja eru mun minni en gert var ráð fyrir er enn sem komið er ekki hægt að benda á sérstök verkefni sem styrkt hafa verið með þessum tekjum. Ég hef nú þegar skipað þriggja manna sjóðstjórn Rannsóknanámssjóð sem mun annast styrkveitingar til rannsókna til framhaldsnáms við Háskóla Íslands. Sjóðstjórnina skipa dr. Axel Björnsson, framkvæmdastjóri Vísindaráðs, dr. Helgi Valdimarsson, formaður Vísindanefndar Háskóla Íslands, og dr. Stefán Baldursson, skrifstofustjóri í menntmrn., sem er formaður stjórnarinnar.
    Ég hef þegar staðfest úthlutunarreglur sjóðstjórnarinnar og auglýst hefur verið eftir styrkumsóknum. Umsóknarfrestur er til 1. nóv. og það er gert ráð fyrir að styrkúthlutanir sjóðsins liggi fyrir eftir u.þ.b. tvo mánuði.