Framlög til vísindarannsókna

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 15:38:00 (903)


[15:38]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það er vissulega illt til þess að vita að ekki skuli hafa gengið betur með sölu ríkiseigna sem áttu að talsverðu leyti að renna til þessara mála. Ég nefni að nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar sem fjallaði um ráðstöfun hluta tekna af sölu ríkisfyrirtækja skilaði tillögum til ríkisstjórnarinnar í janúarmánuði sl. og þar var lagt til að þeim fjármunum sem um ræðir yrði ráðstafað þannig að 25% renni til grunnrannsókna, 50% renni til hagnýtra rannsókna og þróunarstarfa en 25% fari til markaðsrannsókna í þágu

atvinnulífsins, af þessum fimmtungi vel að merkja sem átti að fara til þessara mála.
    Þó að þetta hafi ekki gengið eins og að var stefnt þá hafa markmiðin að hluta til náðst vegna þess að þessar samþykktir ríkisstjórnarinnar hafa orðið til þess að það hefur verið lagt til á fjáraukalögum og við undirbúning fjárlaga 1994 að þetta fjármagn verði a.m.k. að hluta til tryggt þótt ekki gangi betur með sölu ríkiseigna sem við getum ekki fullyrt neitt um á þessu stigi.