Átak gegn einelti

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 15:40:00 (904)

[15:40]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Þann 20. des. 1990 var eftirfarandi ályktun samþykkt á Alþingi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því að gert verði átak gegn einelti meðal barna og unglinga og skipa í þessu skyni samstarfshóp kunnáttufólks til að gera tillögur um úrbætur.``
    Ástæðan fyrir því að ég spyr nú um það hvað gert hafi verið í þessum málum er sú að mjög mikil umræða hefur verið meðal skólafólks, sálfræðinga og annarra, sem sérstaklega hafa látið sig hag barna og ungmenna varða, um einelti. Ekki virðist öllum vera ljóst að þessi ályktun var samþykkt á Alþingi né heldur að eitthvert sérstakt átak sé í gangi. Þrátt fyrir að ýmislegt sé verið að gera jákvætt sýnist mér að það sé ekki um neina heildarsamhæfingu að ræða í því máli og upplýsingar miðlist ekki sem skyldi og það sé í rauninni ekki hægt að skynja það á viðtölum við aðila sem gerst þekkja til að neitt átak af þessu tagi sé í gangi núna.
    Í umræðum um þetta mál fyrir þremur árum var m.a. vitnað til þróunar sem hefur verið í Noregi. Þar var gert átak á ákveðnum tíma á svæðinu kringum Bergen og það átak bar mikinn árangur. Síðan verður að segjast eins og er að eftir að þessu átakstímabili lauk, þá hefur því miður sótt í verra horf. Einkum er talað um eitt atriði sérstaklega sem þar veldur. Það er aukning á ofbeldi í myndmiðlum, einkum í sjónvarpi, og þetta er farið að valda verulegum áhyggjum fólks í Noregi. Ég held því að það sé nauðsynlegt að vita hvað gert hefur verið hér á landi, einkum í ljósi þess að nákvæmlega sama þróun hefur átt sér stað hér.
    Einnig er ástæða til þess að athuga hvort eitthvert átak af þessu tagi sé í gangi vegna þess að nú berast fregnir um að gæsla á leikvöllum við skóla hafi verið skorin niður og sé jafnvel engin sums staðar og þetta er í kjölfar mikils niðurskurðar í skólakerfinu. Samkvæmt upplýsingum Guðjóns Ólafssonar sérkennslufræðings, á 75% af ofbeldi og einelti sér stað í grunnskólum og skólavellirnir eru að flestra mati eitt erfiðasta svæðið.
    Ég vil líka benda á það sem vel hefur verið gert m.a. í Hjallaskóla í Kópavogi, sem færir okkur heim sanninn um að það er hægt að taka á einelti. Því spyr ég, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á hvern hátt hefur ályktun Alþingis um átak gegn einelti sem samþykkt var 20. desember 1990 verið fylgt eftir?``