Málefni Blindrabókasafns

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 16:00:54 (911)


[16:02]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Já, ég tel að það hafi verið reynt til þrautar að ná sáttum. Það hefur komið fram margítrekað, ég held ég megi segja á fjórum fundum stjórnar Blindrabókasafnsins, ákveðin samþykkt um að safnið yrði flutt. Ég hef fyrir utan þennan fund sem ég gat um og á voru fulltrúar frá Öryrkjabandalagi, Blindrafélagi og Blindrabókasafni, auk þess átt viðræður við stjórnarformann Blindrabókasafnsins og forstöðumann og ég hef sannfærst um að þetta muni ekki ganga, að safnið verði áfram í Hamrahlíð 17. Því miður, segi ég, vegna þess að mér er ljóst að það er ekki í fullum friði við Blindrafélagið og mér þykir auðvitað mjög slæmt að það skuli ekki hafa getað orðið um þetta sæmileg sátt. En hún sýnist ekki geta orðið og það eru fyrir þessu bæði þær ástæður að húsnæðið er afar óþénugt, það væri komið á þrjár hæðir sem er ekki gott og það er í þröngu sambýli þarna við aðra aðila sem ég skil svo á stjórn safnsins að sé mjög óþægilegt. Það er því mitt mat eftir þessar viðræður að það hafi verið reynt til þrautar að ná sátt í þessu máli. Og ég tek enn og aftur fram að ég treysti mér ekki til þess að grípa fram fyrir hendur stjórnar safnsins. Þó að ég hafi kannski vald til þess að ógilda þessa samþykkt, þá hef ég ekki talið það réttlætanleg afskipti ráðherra af málinu.