Húsnæðiskannanir sveitarfélaga

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 16:07:05 (913)


[16:07]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Kannanir þær sem fsp. fjallar um eru venjulega tengdar undirbúningi umsókna um lán til bygginga félagslegra íbúða. Upplýsinga er yfirleitt aflað með sérstökum könnunum, en í einhverjum tilvikum mun stuðst við nýlega biðlista húsnæðisnefnda eftir íbúðum.
    Upplýsingar þær sem Húsnæðisstofnun ríkisins hefur um þetta efni eru fyrst og fremst í gögnum með umsóknum um framkvæmdalán. Af þeim 76 sveitarstjórnum sem sóttu um lán vegna ársins 1991 sendu 58 þeirra upplýsingar um þörf og áætlun til þriggja ára. Vegna ársins 1992 skiluðu 69 sveitarfélög slíkum áætlunum og 54 aðilar vegna 1993.
    Varðandi annan lið fsp., þá vil ég skýra frá því að upplýsingar um áætlanir um byggingu og kaup félagslegra íbúða berast Húsnæðisstofnun ríkisins einnig fyrst og fremst í tengslum við umsóknir um framkvæmdalán. Af þeim aðilum sem sóttu um framkvæmdalán skiluðu eins og áður sagði 58 slíkum áætlunum vegna 1991, 69 af þeim sem sóttu um framkvæmdalán vegna 1992 og 54 þeirra sem sóttu um framkvæmdalán vegna ársins 1993. Þessir aðilar fylltu út eyðublað Húsnæðisstofnunar ríkisins varðandi þörf fyrir félagslegar íbúðir næstu árin og skiluðu greinargerð þar að lútandi.
    Í þriðja lagi. Húsnæðisstofnun ríkisins notar sérstakt umsóknareyðublað svo að unnt sé að samræma upplýsingar sem koma frá framkvæmdaaðilum þannig að allir sem sækja um lán hjá Byggingarsjóði verkamanna verða að fylla það út. Eyðublað þetta er sent öllum félagslegum framkvæmdaaðilum sem sækja um lán hjá Byggingarsjóði verkamanna og er sérstaklega auglýst. Meðal annars er óskað eftir upplýsingum um eftirfarandi:
    Hvað kemur fram þörf fyrir margar félagslegar íbúðir í könnuninni. Hve margir umsækjendur eru undir tekju- og eignamörkum. Hve margar fjölskyldur eru af hverri stærð. Hver er núverandi húsnæðisaðstaða umsækjenda.
    Vegna íbúðaþarfa næsta ár á eftir verður að fylgja greinargerð um stöðu húsnæðismála, atvinnumála og byggingarframkvæmda í sveitarfélaginu. Umsóknunum þarf einnig að fylgja greinargerð um íbúafjölda næstu árin og í henni þarf m.a. að koma fram hvað er til sölu á almennum markaði í sveitarfélaginu og upplýsingar um ástand og horfur í byggingarmálum.
    Eins og fram kemur af þessu eru húsnæðiskannanir samræmdar þannig að upplýsingar og niðurstöður eiga að vera sambærilegar.
    Í fjórða og síðasta lagi. Húsnæðiskannanir sveitarfélaga hafa verið lagðar til grundvallar lánveitingum Húsnæðisstofnunar ríkisins til félagslegra íbúðabygginga eða kaupa á undanförnum þremur árum, en önnur atriði hafa einnig áhrif á veitingu lánanna. Þau atriði sem einkum eru þar höfð að leiðarljósi eru eftirfarandi:
    1. Húsnæðisþörf einstaklinga og fjölskyldna er metin og eru lagðar til grundvallar húsnæðiskannanir sem fylgja umsóknum sveitarstjórna og félagasamtaka.
    2. Lánveitingar síðustu tveggja ára til félagslegra íbúða í hverju byggðarlagi fyrir sig eru hafðar til hliðsjónar, svo og fjöldi félagslegra íbúða í byggðarlaginu.
    3. Höfð er hliðsjón af því hvort fyrri lánveitingar til byggingar eða kaupa á félagslegu húsnæði hafa verið notaðar.
    4. Tekið er tillit til þess hvort sveitarstjórnir þær sem hlut eiga að máli hafa undanfarið hafnað forkaupsrétti við kaup á félagslegum íbúðum sem komið hafa til innlausnar hjá þeim eða fengið íbúðir fluttar milli kerfa.
    5. Tekið er tillit til þess hvort félagslegar íbúðir hafa í einhverju tilviki verið seldar einstaklingum sem hafa verið yfir gildandi tekjumörkum eða litlum fjölskyldum seldar óhóflega stórar íbúðir.
    6. Atvinnuástand og hugsanleg búsetuþróun á hverjum stað fyrir sig er höfð í huga miðað við tiltækar upplýsingar, svo sem úr lánsumsóknum og víðar að.
    7. Tekið er tillit til greiðslustöðu umsækjenda við Byggingarsjóð verkamanna.
    8. Tekið er tillit til stöðu íbúðamála í hlutaðeigandi sveitarfélögum, aldurssamsetningu íbúða og hvort búið sé í löku eða heilsuspillandi húsnæði.
    9. Tekið er tillit til þess að af hálfu stjórnvalda er gert ráð fyrir að ákveðið hlutfall af nýjum skuldbindingum Byggingarsjóðs verkamanna fari til almennra kaupleiguíbúða.