Sameining barnaverndarnefnda

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 16:15:23 (916)

[16:15]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Sl. vetur bar ég fram nokkrar fyrirspurnir um hin nýju barnaverndarlög og vörðuðu þær einkum framkvæmd af hálfu félmrn. sem tók sem kunnugt er við þessum málaflokki þá nýverið.
    Enn langar mig að halda áfram á sömu braut og snúa þá einkum máli mínu að því hvernig barnaverndarnefndir eru skipaðar og einnig faglegum þætti málsins. Á þskj. 148 ber ég fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. félmrh.:
    ,,Hve margar barnaverndarnefndir hafa verið sameinaðar skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, og á hvaða svæðum eru þær nefndir?``
    Ég held að ég þurfi ekki að rifja það upp fyrir áhugafólki um þetta mál að það urðu allnokkrar umræður um það með hvaða hætti þessum málum yrði best skipað, hversu langt skyldi ganga í því að gera sveitarfélögum að sameinast um barnaverndarnefndir. Þar toguðust á sjónarmið um sjálfstæði sveitarfélaga, sem ég er vissulega hlynnt, og svo hins vegar efasemdir um það að hægt væri að sinna á faglegan hátt barnaverndarmálum nema með því að sameina barnaverndarnefndir í fámennum sveitarfélögum. Nú finnst mér ástæða til þess að Alþingi fái að heyra hvað hefur gerst í þessum málum. Það var valið að fara tiltölulega mjúka leið og ég vil lesa hér 1. mgr. 6. gr. laganna, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á vegum sveitarfélaga skulu starfa barnaverndarnefndir. Borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórnir í kaupstöðum kjósa barnaverndarnefndir, sbr. þó 2. mgr. Minni sveitarfélög skulu sameinast um kosningu barnaverndarnefndar. Heimilt er sveitarstjórn að fela héraðsnefnd eða stjórn byggðasamlags kosningu barnaverndarnefndar er nær yfir fleiri en eitt sveitarfélag eða semja um svæðisbundið samstarf með öðrum hætti en að framan greinir.``
    Það eru einkum smærri sveitarfélögin sem ég er að velta fyrir mér hér og það eru í rauninni engin skýr ákvæði hvernig fara skuli með þau mál að öðru leyti en því að segja að minni sveitarfélög skuli sameinast um kosningu barnaverndarnefndar.
    Þarna vantar útfærslu og mér finnst full ástæða til þess að grennslast fyrir um þetta mál. Ég vil einnig benda á skýrslu frá Hagsýslu ríkisins frá því í október á þessu ári um málefni barna og ungmenna, stjórnsýsluskipulag og rekstur. En ég geymi mér að taka tilvitnun úr þeim texta.