Sameining barnaverndarnefnda

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 16:18:41 (917)

[16:18]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Með bréfi, dags. 20. jan. 1993, ritaði félmrn. öllum bæjarstjórnum og hreppsnefndum umburðarbréf þar sem kynnt var að ný lög um vernd barna og ungmenna hefðu tekið gildi. Í bréfinu voru kynnt ákvæði 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga þar sem kveðið er á um kosningu barnaverndarnefnda og um heimild sveitarstjórna að fela félagsmálaráði störf barnaverndarnefndar. Þá er þar kynnt að sveitarstjórnum sé heimilt að fela héraðsnefnd eða stjórn byggðasamlags kosningu barnaverndarnefndar sem nái yfir fleiri en eitt sveitarfélag eða semji um svæðisbundið samstarf með öðrum hætti.
    Í bréfi sínu lagði ráðuneytið ríka áherslu á það við hreppsnefndir að þær hefðust þegar handa við fyrrgreinda samvinnu og sameinuðust um kosningu barnaverndarnefnda á þann hátt sem þær teldu ákjósanlegastan. Lét ráðuneytið í ljós það álit að stækkun barnaverndarumdæma væri forsenda þess að unnt væri að ráða sérhæft starfslið eins og lögskylt væri. Óskaði ráðuneytið eftir því í bréfi sínu að því yrði tilkynnt þegar hreppsnefndir hefðu komið sér saman um tilhögun á kosningu sameiginlegra barnavernda á tilteknu svæði. Því miður er það svo að engin slík tilkynning hefur borist ráðuneytinu til þessa. Má búast við að þær breytingar sem fyrir dyrum standa vegna sameiningar sveitarfélaga og að sveitarstjórnarkosningar eru fram undan, hafi haft þar einhver áhrif. Hins vegar hafa verið skipaðar nýjar barnaverndarnefndir í þeim sveitarfélögum sem sameinast hafa fram að þessu og má sem dæmi nefna að ein barnaverndarnefnd er í Eyjafirði þar sem þrjár voru áður.